Hoppa yfir valmynd
4. maí 2022 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra á leiðtogafundi Norðurlandanna og Indlands

Norrænu forsætisráðherrarnir ásamt forsætisráðherra Indlands. Mynd/Forsætisráðuneyti Danmerkur - mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók í dag þátt í leiðtogafundi Norðurlandanna og Indlands sem fram fór í Kaupmannahöfn. Þetta er í annað sinn sem forsætisráðherrar ríkjanna hittast en fyrri fundur var í Stokkhólmi árið 2018. Fundinn sátu allir forsætisráðherrar Norðurlandanna auk Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands.

Meðal umræðuefna á fundinum var hin alvarlega staða sem uppi er á alþjóðavettvangi vegna innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu, Covid-19 heimsfaraldurinn, aðgerðir í loftslagsmálum og mikilvægi fjölþjóðasamstarfs þegar kemur að áskorunum í alþjóðakerfinu. Þá ræddu forsætisráðherrarnir um samvinnu á sviði nýsköpunar, stafrænnar væðingar og í málefnum hafsins. Indland er stærsta lýðræðisríki veraldar og kom fram gagnkvæmur áhugi á áframhaldandi virku stjórnmála- og viðskiptasamstarfi.

Forsætisráðherrarnir sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu að fundinum loknum.

Forsætisráðherra átti einnig tvíhliða fund með forsætisráðherra Indlands. Þar var rætt um 50 ára afmæli stjórnmálasambands ríkjanna sem minnst er í ár en til þess var stofnað árið 1972. Ísland opnaði sendiráð í Nýju-Delí árið 2006 og Indland opnaði sendiráð í Reykjavík tveimur árum síðar. Síðan þá hefur markvisst verið unnið að því að efla samskipti ríkjanna þar sem áherslusviðin eru endurnýjanleg orka, einkum jarðvarmi, samvinna á sviði sjávarútvegsmála, og ferðaþjónusta.

Ráðherrarnir ræddu sömuleiðis jafnréttismál, baráttuna gegn loftslagsvánni og möguleika á samstarfi um grænar tæknilausir. Forsætisráðherra Indlands fagnaði vinsamlegum samskiptum ríkjanna og lýsti áhuga á auknu samstarfi á sviði norðurslóðarannsókna en Indland er eitt áheyrnarríkja að Norðurskautsráðinu.

Þá átti forsætisráðherra einnig tvíhliða fund með Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. Þær ræddu stöðuna í alþjóðamálum og tvíhliða samstarf landanna sem er mjög farsælt.

Narenda Modi, forsætisráðherra Indlands, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

Narenda Modi, forsætisráðherra Indlands, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum