Hoppa yfir valmynd
9. maí 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ráðherra ávarpaði UNESCO fund í Perlunni

Ráðherra ávarpaði UNESCO fund í Perlunni - myndMyndirnar tók Eyþór Árnason

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, opnaði fund evrópskra landsnefnda Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna – UNESCO sem haldinn er í fyrsta sinn hér á landi dagana  8.-10. maí. 

Í ávarpi sínu fagnaði ráðherra því að Ísland hefði nú tekið sæti í framkvæmdastjórn UNESCO og talaði þar fyrir jafnrétti, menningarlegri fjölbreytni, frelsi fjölmiðla og mannréttindum.

„Ísland hefur lengi verið hluti af UNESCO og við erum ákaft stuðningsfólk fjölþjóðahyggju. Við vinnum sleitulaust að markmiðum UNESCO og gildum stofnunarinnar og á Íslandi deilum við sýn UNESCO um að stuðla að friði og öryggi á grundvelli samvinnu ríkja með samtali á vettvangi menningar, menntunar , samskipta og vísinda,“ segir Lilja, en Ísland var kjörið í framkvæmdanefnd UNESCO í fyrra. 

Fundurinn er að þessu sinni haldinn í samvinnu íslensku og kanadísku landsnefndanna. Á fundinum verður m.a. lögð sérstök áhersla á jafnréttismál, menningu og móttöku flóttamanna frá Úkraínu í löndum Evrópu. 

Ráðherra ávarpaði fundinn

Eliza Reid, forsetafrú og höfundur bókarinnar Sprakkar, mun ávarpa fundarmenn í sérstakri dagskrá um jafnréttismál.

Þá munu fulltrúar Vigdísarstofnunar, alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar á vettvangi UNESCO, fjalla um vinnu sína í fjölþjóðlegum stýrihópi um áratug frumbyggja- og fámennistungumála (e. International Decade of Indigenous Language) auk þess sem kynnt verður fjölbreytt starf sem Reykjavík bókmenntaborg UNESCO stendur fyrir.

Einnig verður varpað ljósi á viðamikið starf GRÓ – þekkingarmiðstöðvar um þróunarsamvinnu sem starfar hér á landi undir merkjum UNESCO og verður sérstaklega fjallað um Jafnréttisskólann. 

Fulltrúar landsnefnda UNESCO frá 32 löndum sækja fundinn á Íslandi og m.a. verða heimsótt svæði hér á landi sem hlotið hafa viðurkenningu stofnunarinnar sem einstök svæði á heimsvísu; Reykjanes UNESCO jarðvangur og Þingvellir sem eru á Heimsminjaskrá UNESCO.

 

 

Um UNESCO

UNESCO er sérstofnun Sameinuðu þjóðanna sem hefur það að markmiði að stuðla að friði og öryggi í heiminum með því að efla alþjóðlega samvinnu í málaflokkum stofnunarinnar og er eina sérstofnunin sem leggur áherslu á menningarmál og sem hefur byggt upp net landsnefnda í öllum aðildarlöndum sínum. Þá hefur UNESCO sérstakt umboð til að efla tjáningar- og fjölmiðlafrelsi og sinnir margvíslegum verkefnum með áherslu á vísindi, menntun, menningu og menningararf og heldur m.a. úti hinni þekktu Heimsminjaskrá. Ísland var kosið í framkvæmdastjórn UNESCO í nóvember á síðasta ári. 

Framkvæmd heimsmarkmiða Sþ, jafnrétti, mannréttindamiðuð nálgun, virk þátttaka ungmenna og aðgengi allra (e. inclusion) verða rauður þráður í áherslum Íslands á meðan setu í framkvæmdastjórn stendur. Ísland mun vinna að því að UNESCO sé og haldi áfram að vera áhrifarík og skilvirk stofnun á sínu sviði og vinni eftir samræmdri stefnu, skilvirkum stjórnunarháttum og í góðu samstarfi við aðrar undirstofnanir Sþ. Ísland mun einnig styðja áframhaldandi endurbótastarf og þróun UNESCO með það að leiðarljósi að byggja enn frekar upp traust starf í þeim mikilvægu málaflokkum sem stofnunin sinnir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira