Hoppa yfir valmynd
10. maí 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Kvikmyndaendurgreiðslur í Samráðsgátt: Stærri verkefni fái 35% endurgreiðslu kostnaðar

Kvikmyndaendurgreiðslur í Samráðsgátt: Stærri verkefni fái 35% endurgreiðslu kostnaðar - myndBirgir Ísleifur Gunnarsson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur sett drög að frumvarpi um breytingu á lögum um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar í Samráðsgátt stjórnvalda. Endurskoðun laganna er áherslumál í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og upplýsti ráðherra ríkisstjórn um stöðu vinnunnar sl. föstudag.

Hlutfall endurgreiðslu af framleiðslukostnaði sem til fellur hér á landi er samkvæmt gildandi lögum 25%. Víða í nágrannalöndum Íslands er það hlutfall komið í 35% og eru það þau lönd sem Ísland á í mestri samkeppni við í að laða til sín stærri og lengri tíma kvikmynda- og sjónvarpsverkefni og er því mikið hagsmunamál fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað að lögin verði endurskoðuð með tilliti til þeirrar samkeppni. Í drögunum sem ráðherra kynnti er lagt til að afmörkuð stærri verkefni, sem uppfylla ákveðin skilyrði sem fram koma í lögunum eigi rétt á 35% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði.

Hér má nálgast frumvarpið í Samráðsgátt stjórnvalda.

„Við vitum að það er mikill áhugi á þessum áformum okkar um lagabreytingu á endurgreiðslunum og við höfum haft málið í algjörum forgangi. Brýnt er að öll viðmið séu skýr og gagnsæ þar sem einn helsti styrkleiki endurgreiðslukerfisins, í alþjóðlegum samanburði, hefur verið einfaldleiki þess og skýrleiki. Það eru gríðarleg tækifæri í að efla kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Þessar breytingar munu skapa fjölmörg ný og spennandi störf og auka útflutningsverðmæti þjóðarbúsins“ segir Lilja.

Starfshópur hefur verið að störfum við endurskoðun laganna, en verkefni hans er að endurskoða endurgreiðsluhlutfall laganna og skoða útfærslur til hækkunar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Frumvarpið er áfram í vinnslu innan menningar- og viðskiptráðuneytis í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Upphafleg áform ráðuneytisins gerðu ráð fyrir að frumvarp þessa efnis yrði lagt fram á haustþingi 2022. Ákveðið hefur verið að flýta vinnunni og leggja frumvarpið fram nú á vorþingi.

 

Hér má nálgast kvikmyndastefnu til 2030

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum