Hoppa yfir valmynd
11. maí 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Brynja Dan Gunnarsdóttir leiðir starfshóp um forvarnir og viðbrögð við áföllum í lífi barna

Brynja Dan Gunnarsdóttir - mynd

Brynja Dan Gunnarsdóttir mun leiða starfshóp Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, um forvarnir og viðbrögð við áföllum í lífi barna. Hlutverk starfshópsins er að kortleggja aðstæður sem líklegar eru til þess að valda alvarlegu áfalli í lífi barns eða aðstandanda þess. Starfshópurinn mun greina þjónustuþörf og nauðsynleg úrræði sem gætu dregið úr líkum á áföllum eða áhrifum áfalla og koma með tillögur að úrbótum þvert á þjónustukerfi. Vinnan er þáttur í innleiðingu löggjafar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Rannsóknir sýna að áföll í æsku hafa forspárgildi um líkamlega og andlega heilsu síðar á ævinni. Börn sem upplifa áföll í æsku eru m.a. í aukinni áhættu er varðar geðrænan vanda, áhættuhegðun, aukna lyfjanotkun og líkamlega sjúkdóma á fullorðinsárum. Áföll foreldra og náinna aðstandenda sem valda börnum ójafnvægi eða vanlíðan geta haft áhrif á getu þeirra til að sinna barni og bregðast við líðan þess og þörfum. Mikilvægt er að huga að börnunum samhliða forvörnum og fyrirbyggjandi aðgerðum. Skoða þarf hvernig hægt er að stíga inn með markvissri og viðeigandi aðstoð fyrir börn og fjölskyldur þeirra þegar áfall hefur eða er að fara að eiga sér stað. Með því er hægt að lágmarka þau alvarlegu og langvarandi áhrif sem áfall getur haft og veita börnum og aðstandendum verkfæri til þess að glíma við erfiðar aðstæður.

Brynja, sem er framkvæmdastjóri og varaþingmaður Framsóknarflokksins, hefur mikla reynslu af málefnum barna og situr m.a. í stjórnum Barnaheilla og Íslenskrar ættleiðingar:

„Mín eigin áfallasaga hefur haft áhrif á allt mitt líf og markað áherslur mínar í starfi og leik. Ég brenn fyrir því að fleyta okkur áfram í þeirri vegferð að vinna betur með áföll og að við sem samfélag styðjum betur við börnin okkar og hlúum að þeim. Ég hlakka því mikið til að kljást við þetta mikilvæga verkefni.“

Starfshópurinn verður skipaður fagfólki, fulltrúum þeirra ráðuneyta og annarra aðila sem koma að þjónustu við börn. Áhersla verður á víðtækt samráð við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili tillögum fyrir lok árs 2022.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira