Hoppa yfir valmynd
12. maí 2022 Dómsmálaráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Aukið alþjóðlegt samstarf gegn tölvuglæpum

Ragnhildur Arnljótsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu undirritar samninginn fyrir hönd ráðherra í þinghöll Evrópuráðsins - myndAlban Hefti

Ísland hefur ásamt 21 öðru ríki undirritað aðra viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot um aukið samstarf og upplýsingagjöf fyrir rafræn sönnunargögn. Bókunin er til komin í ljósi aukinnar útbreiðslu netglæpa samhliða vaxandi notkun upplýsinga- og samskiptatækni. Yfirvöld á Íslandi hafa ekki farið varhluta af þessari þróun og því aukna flækjustigi sem öflun sönnunargagna yfir landamæri getur haft í för með sér fyrir meðferð sakamála, hvort sem þau eru til meðferðar í refsilögsögu Íslands eða annarra ríkja.

Ragnhildur Arnljótsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu undirritaði samninginn fyrir hönd ráðherra í þinghöll Evrópuráðsins í Strassborg. Dómsmálaráðuneytið fer með málefni samningsins fyrir hönd Íslands og á fulltrúa í nefnd Evrópuráðsins sem sér um samninginn.

Bókuninni er ætlað að mæta þörfinni fyrir skjótar og skilvirkar boðleiðir milli ríkja við meðferð sakamála og milli opinberra aðila og einkaaðila. Helstu nýmælin varða ákvæði um samvinnu yfirvalda og þjónustuveitenda, óháð landamærum. Bókuninni er ætlað að undirbyggja lagagrundvöll fyrir slíkt samstarf, með innleiðingu í landsrétt aðildarríkja. Markmiðið er að koma á skjótvirkara og skilvirkara samstarfi vegna upplýsingaöflunar löggæsluyfirvalda um notendur, áskrifendur og fjarskiptaumferð í þágu rannsóknar sakamála. Þá er mælt fyrir um fyrirkomulag við slíka upplýsingaöflun í neyðartilvikum.

Á döfinni er að endurskoða lagaumgjörð á Íslandi í tengslum við innleiðingu viðbótarbókunarinnar sem gefa mun yfirvöldum víða um heim skilvirkari verkfæri í baráttunni við hvers konar brotastarfsemi þar sem tölvur eru hagnýttar til afbrota.

Formennska Íslands í Evrópuráðinu

Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember á þessu ári. Í aðdraganda þess hefur fastafulltrúi Íslands tekið sæti í yfirstjórn Evrópuráðsins og gegnir formennsku á mannréttindafundum ráðherranefndar Evrópuráðsins hálfu ári áður en Ísland tekur við formennskunni. Á meðan á formennskunni stendur leiðir Ísland starf ráðsins, ásamt öðrum leiðtogum þess, hefur málefnalegt frumkvæði í starfseminni og er í fyrirsvari fyrir Evrópuráðið gagnvart öðrum alþjóðastofnunum. Ísland hefur einu sinni áður, árið 1999, gegnt formennsku í Evrópuráðinu.

Evrópuráðið (e. Council of Europe) var stofnað 5. maí 1949 í kjölfar hörmunga síðari heimstyrjaldarinnar. Ísland gerðist aðili að Evrópuráðinu 7. mars 1950. Aðildarríki þess eru 47. Samkvæmt stofnskrá Evrópuráðsins er því ætlað að efla samvinnu aðildarríkjanna með það að markmiði að standa vörð um mannréttindi, styrkja lýðræðislega stjórnarhætti, efla mannleg gildi og almenn lífsgæði Evrópubúa.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum