Hoppa yfir valmynd
12. maí 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra skipar starfshóp um stöðu og áskoranir þjóðgarða og friðlýstra svæða

Gjáin í Þjórsárdal - myndHugi Ólafsson

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að vinna skýrslu um stöðu og áskoranir í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.

Tilgreint er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að á kjörtímabilinu verði, með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, stofnaður þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu.

Starfshópurinn mun við vinnu sína leggja megináherslu á þjóðgarða landsins og stærri friðlýst svæði. Á hópurinn m.a. að öðlast heildaryfirlit yfir málaflokkinn, draga saman upplýsingar um og kortleggja hverjir nýta svæðin til dæmis á sviði ferðaþjónustu. Þá á hópurinn að afla gagna og heimilda um efnalagslegan ávinning atvinnulífsins, láta kanna viðhorf ýmissa hópa í samfélaginu.

„Undanfarin ár hefur átt sér stað á Íslandi mikil umræða um gildi þess að stofna þjóðgarða og að friðlýsa einstök svæði og menningarminjar. Ég hef því ákveðið að skipa starfshóp sem falið er það hlutverk að vinna skýrslu um stöðu og áskoranir í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Skýrslunni er ætlað að vera grunnur fyrir frekari skoðun á skipulagi þjóðgarða og friðlýstra svæða,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Starfshópinn skipa:

  • Árni Finnsson, formaður,
  • Guðrún Svanhvít Magnúsdóttir,
  • Sveinbjörn Halldórsson.

Starfshópurinn á að skila skýrslu til ráðherra fyrir 1. október.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum