Hoppa yfir valmynd
12. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Íslands og Indlands funduðu í tilefni af hálfrar aldar stjórnmálasambandi

Aukið tvíhliða samstarf Íslands og Indlands á fjölmörgum sviðum, m.a. í nýtingu endurnýjanlegrar orku, sjávarútvegi, menningu og menntun, og afleiðingar stríðsins í Úkraínu voru á meðal umræðuefna á fjarfundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og dr. S. Jaishankar utanríkisráðherra Indlands í dag. Fundurinn var haldinn í tilefni af 50 ára afmæli stjórnmálasambands ríkjanna. 

Utanríkisráðherrarnir ræddu stöðu heimsmála, m. a. innrás Rússa í Úkraínu og hnattrænar afleiðingar hennar. Þórdís Kolbrún lýsti áhyggjum sínum vegna mannúðarástandsins í Úkraínu sem og fæðuöryggis í fátækari ríkjum heims, og vilja sínum til að vinna með Indverjum og öðrum lýðræðisríkjum að því að verja alþjóðakerfið og alþjóðalög. Einnig var rætt um sjálfbæra þróun, mannréttindi og málefni norðurslóða. 

Ráðherrarnir ákváðu að efla samskiptin eftir tveggja ára stöðnun vegna COVID-19 ástandsins og nýta betur þá samninga og samstarfsyfirlýsingar, sem gerð hafa verið. Ákveðið hefur verið að setja á stofn sérstakan verkefnishóp (Task Force), til að fara yfir samstarfsmöguleika í nýtingu jarðvarma, en þegar eru fyrir hendi tvö verkefni á því sviði. Ákveðið var að framlengja samstarfsáætlun um menningarmál, en núverandi rennur út í ár og efla háskólasamstarf, m. a. sviði stafrænnar þróunar, og standa fyrir menningarviðburðum, til að minnast afmælisins. 

„Gagnkvæm samvinna um stafræna þróun og nýsköpun er mikilvæg, sagði Þórdís Kolbrún. „Indverjar hafa yfir mikilli tækniþekkingu og sérfræðingum að ráða, sem nýst getur Íslendingum.“ 

Ráðherrarnir létu í ljós ánægju með samstarfið um stöðu indversks gestaprófessors við Háskóla Íslands og ræddu möguleika á svipaðri stöðu í íslenskum fræðum á Indlandi.  
Einnig kom fram ánægja með gott samstarf á milli Jarðhitaskóla, Sjávarútvegsskóla og Jafnréttisskóla GRÓ/UNESCO og indverskra aðila og þá mörgu sérfræðing frá Indlandi, sem komið hafa til þjálfunar á Íslandi.

Ráðherrarnir létu ennfremur í ljós vonir um að árangur næðist í  viðræðum EFTA og Indlands um fríverslun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum