Hoppa yfir valmynd
13. maí 2022 Matvælaráðuneytið

Land er lykillinn í baráttunni við loftslagsbreytingar

Ísland tekur þátt í fimmtánda þingi Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun sem haldið er 9.-20. maí í Abidjan á Fílabeinsströndinni.

Salome Hallfreðsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu sjálfbærni í matvælaráðuneytinu, situr þingið fyrir Íslands hönd og hélt ræðu fyrir Íslands hönd á opnunarhátíð þingsins. Salome fjallaði m.a. um þá staðreynd að áskoranir eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna endurspeglast í sögu íslensks jarðvegs, vistkerfa og samfélags en talið er að Ísland hafi tapað 95% af upprunalegri þekju skóga og helmingi jarðvegs. Í dag er aftur á móti áætlað að á Íslandi endurheimtist meiri gróðurþekja en sú sem tapast.

Vísindanefndir SÞ eru sammála um að land er lykill að baráttunni við loftslagsbreytingar og tap líffræðilegrar fjölbreytni. Íslensk stjórnvöld hafa nálgast loftslagsmálin með mikla áherslu á hlut landsins, auka kolefnisbindingu, draga úr losun frá landi og ná markmiði um sjálfbæra landnýtingu.

Á þinginu er fjallað um hvernig megi tengja betur baráttuna gegn landeyðingu við loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni. Málefni sem Íslendingar þekkja vel þar sem unnið hefur verið að því í rúma öld að auka og efla líffræðilega fjölbreytni með uppgræðslu örfoka lands og auka og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti með gróðri. Fátt stuðlar að meiri losun kolefnis út í andrúmsloftið en landhnignun og að sama skapi hefur landhnignun verulega neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Eins hafa loftslagsbreytingar nú þegar aukið hnignun lands og eyðimerkurmyndun. Landnýting er því í senn hluti af vandamálinu og lausninni.

Í því samhengi má nefna að íslensk stjórnvöld hafa tekið svonefndri Bonn-áskorun, sem er alþjóðlegt átak um endurheimt skóga. Staðfest markmið Íslands er að árið 2030 vaxi birkiskógar á 5% lands á Íslandi, í stað 1,5% nú.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
15. Líf á landi
14. Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum