Hoppa yfir valmynd
13. maí 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Lýsti fullri samstöðu með íbúum Úkraínu á aðalfundi EBRD

Bjarni Bendiktsson á aðalfundi EBRD   - myndmynd/EBRD

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, ávarpaði í vikunni aðalfund Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu (EBRD) sem fram fór í Marrakesh. Þar lýsti hann fullri samstöðu Íslands með íbúum Úkraínu og þeirri kröfu íslenskra stjórnvalda að Rússar stöðvi tafarlaust hernaðaraðgerðir, fari á brott með herlið sitt frá Úkraínu og virði ákvörðunarrétt og sjálfstæði landsins.

Eigendanefnd bankans, sem 73 hluthafar í bankanum eiga sæti í, lýsti á fundinum eindregnum stuðningi við Úkraínu. Ísland er einn hluthafa bankans, sem er stærsti stofnanafjárfestirinn í Úkraínu.

Ísland studdi á fundinum áframhaldandi öflugan stuðning bankans við Úkraínu, en öll starfsemi bankans í Rússlandi var stöðvuð fyrr á árinu. Fram kom í máli Serhiy Marchenko fjármálaráðherra Úkraínu á fundinum að um 30% úkraínskra fyrirtækja hefðu hætt starfsemi eftir innrás Rússa og að hagkerfið hefði dregist saman um 45%.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Það var hughreystandi að heyra að þegar væri verið að vinna að fjölbreyttum uppbyggingarverkefnum í Úkraínu. Þá var gott að finna samhljóminn í afstöðu vinaþjóða okkar á fundum mínum með fjármálaráðherrum, m.a. frá Eistlandi, Lettlandi og Moldavíu. Við þurfum áfram að styðja við Úkraínu með margvíslegum hætti og ljóst að á komandi árum bíður mikið endurreisnar- og uppbyggingarstarf,“

Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu er alþjóðleg fjármálastofnun sem fjármagnar verkefni á vegum einkafyrirtækja og opinberra aðila. Starfsemi bankans nær til yfir 30 landa - frá Austur-Evrópu til Mið-Asíu og Suður- og Austur-Miðjarðarhafs. Sérstök áhersla er lögð á þróun og fjármögnun verkefna á sviði endurnýjanlegrar orku og umhverfisvænna orkugjafa.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum