Hoppa yfir valmynd
13. maí 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Rekstrarsamningar undirritaðir við ÚTÓN og Tónverkamiðstöð

Ráðherra ásamt þeim Sigtryggi Baldurssyni, framkvæmdastjóra ÚTÓN og Valgerður Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Tónverkamiðstöðvar - mynd

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri ÚTÓN (Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar) hafa undirritað samning um rekstrarstyrk til ÚTÓN fyrir árið 2022. Samtímis undirritaði ráðherra samning við Íslensku tónverkamiðstöðina um rekstrarstyrk fyrir árið 2022.

„Það er alltaf gleðilegt að renna styrkari stoðum undir íslenska tónlist, tónlistarmenn, og tónverkasöguna eins og við gerum með þessum samningum. ÚTÓN og Tónverkamiðstöð hafa staðið í stafni í þessum málum. Viðspyrnustyrkurinn vegna heimsfaraldursins mun einnig hafa mikið að segja. Við ætlum að halda vel á spilunum í þessum málum, segir Lilja.

 

Samningur við ÚTÓN

Með samningnum er ÚTÓN m.a. falið að kynna íslenska tónlist, tónlistarmenn og tónlistarviðburði hér á landi og erlendis.Tilgangur ÚTÓN er að leita tækifæra til að efla og skapa sóknarfæri til handa rétthöfum íslenskrar tónlistar innanlands sem utan. Hún hefur að markmiði að auka möguleika íslenskra fyrirtækja og einstaklinga í tónlistarútrás að ná árangri í alþjóðlegum viðskiptum.

Þá hljóðar samningurinn jafnframt upp á sérstakt 10 milljóna króna framlag frá menningar- og viðskiptaráðuneyti sem er hluti aðgerða ríkisstjórnarinnar til viðspyrnu í þágu tónlistargeirans vegna heimsfaraldursins.

 

Samningur við Tónverkamiðstöð

Með samningnum við Íslensku tónverkamiðstöðina er henni meðal annars falið að halda áfram að styrka söfnun, skráningu og varðveislu á rituðum tónverkum eftir íslensk tónskáld og tryggja aðgengi og upplýsingar að þeim. Þetta felur t.d. í sér endurnýjun og viðhald á gagnagrunni tónverka. Tónverkamiðstöð er einnig falið að efla og vinna að kynningu á þeim verkum sem miðstöðin skráir og hefur í sinni vörslu.

Þá hljóðar samningurinn jafnframt upp á sérstakt 10 milljóna króna framlag frá menningar- og viðskiptaráðuneyti sem er hluti aðgerða ríkisstjórnarinnar til viðspyrnu í þágu tónlistargeirans vegna heimsfaraldursins.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum