Hoppa yfir valmynd
13. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Tilkynnt um viðbótarframlag frá Íslandi á áheitaráðstefnu um Sýrland

Tilkynnt um viðbótarframlag frá Íslandi á áheitaráðstefnu um Sýrland - myndOCHA/Ali Haj Suleiman

Heildarframlög íslenskra stjórnvalda í þágu sýrlensku þjóðarinnar á þessu ári og fram til ársloka 2024 nema 550 milljónum króna. Tilkynnt var um 60 milljóna króna viðbótarframlag á áheitaráðstefnu í vikunni um Sýrland. Framlagsríki og alþjóða hjálparstofnanir gáfu fyrirheit um 6,7 milljónir Bandaríkjadala á ráðstefnunni sem haldin var í Brussel.

Í máli Högna Kristjánssonar staðgengils sendiherra Íslands á ráðstefnunni kom fram að átökin í Sýrlandi eru ein flóknasta og langvinnasta mannúðarkrísa  sem um getur, tæplega fimmtán milljónir Sýrlendinga þurfi á mannúðaraðstoð að halda, efnahagsleg hnignun sé hröð og matvælaóöryggi fari sívaxandi. Það leiði til enn frekari örvæntingar, fátæktar og varnarleysis sýrlensku þjóðarinnar.

„Skuldbinding okkar við sýrlensku þjóðina er enn jafn traust og áður. Flóttamannavandinn í Sýrlandi heldur áfram að vera einn sá mesti í heiminum. Þess vegna er viðvarandi stuðningur alþjóðasamfélagsins við sýrlensku þjóðina enn jafn lífsnauðsynlegur og áður. Við getum ekki litið undan,“ sagði Högni.

Alls tóku fulltrúar 55 þjóða og 22 alþjóðlegra hjálparsamtaka þátt í áheitaráðstefnunni sem fram fór í sjötta sinn. Stríðsátök í Sýrlandi hafa hins vegar staðið yfir í rúmlega ellefu ár.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira