Hoppa yfir valmynd
16. maí 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Styrkir til doktorsrannsókna á samspili landnýtingar og loftslags auglýstir

Auglýst er eftir umsóknum um styrki í Doktorsnemasjóð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Styrkurinn verður veittur til rannsókna á samspili landnýtingar og loftlags.

Rannís hefur umsjón með sjóðnum sem heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Þetta er í annað skipti sem úthlutað verður úr sjóðnum og eru 40 milljónir til ráðstöfunar að þessu sinni. Markmið sjóðsins er að styrkja rannsóknir á samspili landnýtingar og loftslags. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn nemendur í doktorsnámi á sviði náttúruvísinda. Styrkurinn er veittur til þriggja ára.

„Loftslagsmálin eru ein stærsta áskorun sem við stöndum frammi fyrir. Landnotkun og skógrækt eru stærsti einstaki losunarflokkurinn, en mikil óvissa ríkir í dag um mat og mælingar vegna þeirra. Nauðsynlegt er að geta metið og talið áhrif aðgerða vegna landnotkunar á sama hátt og aðra losun og bindingu og þess vegna er mikilvægt að styðja við grunnrannsóknir á þessu sviði. Bætt landnýting í þágu loftslagsmála þarf að gegna lykilhlutverki í að ná markmiðum okkar um kolefnishlutleysi árið 2040 ,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Landnýting, s.s. beit, friðun, skógrækt og landgræðsla, hefur áhrif á vistfræðilega ferla náttúrunnar. Þessir ferlar eru m.a. tegundasamsetning og lífmassi plantna og dýra, vatnshringrás og næringarhringrás. Þeir bæði stýra bindingu og losun kolefnis í vistkerfinu og ráða hraða bindingar og losunar með samspili sínu.

Frestur til að skila inn umsóknum er til 15. júní 2022, kl 15:00.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira