Hoppa yfir valmynd
16. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins funduðu í Berlín

Líklegar aðildarumsóknir Finnlands og Svíþjóðar, staðan í Úkraínu og undirbúningur fyrir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Madríd voru umfjöllunarefni á óformlegum fundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins sem lauk í Berlín í gær. Afleiðingar innrásarinnar, meðal annars á matvælaöryggi í heiminum, voru jafnframt helsta umræðuefnið á tvíhliða fundum sem utanríksráðherra átti í tengslum við fund Atlantshafsbandalagsins.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir ríka samstöðu bandalagsríkja hafa einkennt fundinn, sem haldinn var með óformlegu sniði í fyrsta sinn. „Almennt er mikill stuðningur við að tryggja að hratt verði gengið frá aðild Finna og Svía ef og þegar umsókn berst. Þar skiptir máli að ríkin hafa bæði átt í langvinnu samstarfi við Atlantshafsbandalagið og eru bæði dæmi um samfélög þar sem helstu sameiginlegu gildum aðilarríkjanna er haldið á lofti. Það blasir við að þessi lönd eiga ákaflega mikið erindi í bandalagið. Aðild þeirra mun styrkja bandalagið og auka öryggi í Evrópu,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Utanríkisráðherrar Finnlands og Svíþjóðar, Pekka Haavisto og Ann Linde, tóku þátt í umræðum. Íslensk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau muni ljá aðildarumsókn þessara ríkja fullan stuðning ef til kemur. Utanríkisráðherra segir ígrundun ríkjanna varðandi aðildarumsókn beina afleiðingu af innrás Rússlands í Úkraínu sem dragi fram mikilvægi þeirrar öryggistryggingar sem í aðild að Atlantshafsbandalaginu felst. „Atlantshafsbandalagið er varnarbandalag. Rússum eða öðrum stendur engin ógn af því ef þessar tvær þjóðir, með sínar rótgrónu lýðræðishefðir og virðingu fyrir mannréttindum, ganga til liðs við bandalagið,“ bætir hún við.

Á fundinum var einnig rætt um nýja grunnstefnu bandalagsins sem nú er í mótun og verður samþykkt á leiðtogafundi í Madríd 29.-30. júní nk. 

„Grunnstefnan þarf að endurspegla gildi bandalagsins, tilgang þess og sýn á meginviðfangsefni næsta áratugar. Þegar núgildandi grunnstefna var samþykkt árið 2010 ríkti friður í Evrópu. Innrás Rússlands í Úkraínu og þær hörmungar sem rússnesk stjórnvöld hafa valdið úkraínsku þjóðinni rauf þann frið. Sú staðreynd er grundvallarbreyting á öryggisumhverfi bandalagsríkjanna sem starfsemi bandalagsins þarf að taka mið af. Þá er ákaflega mikilvægt að grunnstefna Atlantshafsbandalagsins undirstriki þau gildi og heimsmynd sem því er ætlað að standa vörð um; það er lýðræði, einstaklingsfrelsi og réttarríkið“ segir utanríkisráðherra. 

Þórdís Kolbrún átti auk þess tvíhliða fundi samhliða utanríkisráðherrafundinum í Berlín þar sem afleiðingar innrásarinnar í Úkraínu voru jafnan efstar á baugi. Á fundi þeirra Luigi Di Maio, utanríkisráðherra Ítalíu á laugardag voru meðal annars til umfjöllunar málefni Evrópuráðsins og loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins á Íslandi sem Ítalir sinna um þessar mundir. Sameiginleg gildi og hagsmunir, matvælaöryggi og þvingunaraðgerðir ESB voru meðal annars til umræðu á fundi þeirra Þórdísar Kolbrúnar og Wopke Hoekstra, utanríkisráðherra Hollands. Þau João Cravinho, utanríkisráðherra Portúgals, ræddu svo í gær um viðskipti, málefni hafsins og loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins, svo fátt eitt sé nefnt. Á fundi þeirra Þórdísar Kolbrúnar og Evu-Mariu Liimets, utanríkisráðherra Eistlands, voru vinátta ríkjanna, sameiginleg gildi og hagsmunir í brennidepli, rétt eins og á fundi þeirra Edgars Rinkēvičs, utanríkisráðherra Lettlands.
  • Þórdís Kolbrún heilsar Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira