Hoppa yfir valmynd
17. maí 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Forseti og ráðherra funda með stórfyrirtækjum um íslenskuna

Auk forseta, sem leiðir sendinefndina, er hún skipuð menningar- og viðskiptaráðherra, Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Almannaróms, Jóni Guðnasyni, forstöðumanni Gervigreindarseturs Háskólans í Reykjavík, og Vilhjálmi Þorsteinssyni, stofnanda hugbúnaðarfyrirtækisins Miðeindar. - mynd

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptaráðherra eru stödd í Bandaríkjunum þar sem þau funda ásamt íslenskri sendinefnd með stórfyrirtækjum í tækniiðnaði.

Markmið ferðarinnar er að sýna forsvarsmönnum þessara fyrirtækja fram á mikilvægi þess að íslensk tunga eigi sinn sess í þróun á nýjustu máltæknilausnum svo unnt verði að tala íslensku við tölvur og tæki og tryggja þannig framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi.

„Við erum saman í sókn fyrir íslenskuna og þar eru spennandi tímar framundan. Að tryggja stafræna framtíð hennar kallar á breiða samvinnu og þegar hafa unnist áfangasigrar gegnum máltækniverkefni stjórnvalda með virkri þátttöku almennings, vísindafólks og frumkvöðla, svo eftir er tekið! Við heyrðum meðal annars hjá Apple að fá ríki eru komin jafn langt og Ísland í að þróa máltækni fyrir tungumálið sitt. Það sýnir okkur að við erum á réttri leið. Allir þeir sem koma að verkefninu, allt frá hugbúnaðarverkfræðingum til málvísindafólks, á mikið hrós skilið,“ segir ráðherra.

„Nú komum við með heilmikið að borðinu, og höfum fjárfest í þessum mikilvægu innviðum sem tæknifyrirtækin hér munu geta notað. Það er gleðilegt að finna samstarfsvilja hér úti og ég er bjartsýn á árangur – þetta fer geysivel af stað. Fá málefni eru mér jafn hugleikin og íslenskan, hún er grunnur alls sem við gerum og stöndum fyrir. Íslenskt hugvit og ástríða munu tryggja að við getum talað við tækin okkar á íslensku.“

Ísland hefur sett sér máltækniáætlun, en unnið er að fjórum kjarnaverkefnum á vettvangi Almannaróms.

  • Talgreinir

Markmiðið með þróun talgreinis er að til verði forrit sem geti túlkað eðlilegt tal á íslensku. Talgreiningu er hægt að nota á mörgum sviðum, s.s. í tölvukerfum bíla, í heilbrigðiskerfinu, í þjónustuverum fyrirtækja, í tölvustuddu tungumálanámi, til stuðnings fólki sem vegna fötlunar á erfitt með innslátt texta, en talgreinir gefur notendum kost á að eiga samskipti við tölvustýrð tæki með tali í stað lyklaborðs.

  • Talgerving

Þróun talgervils miðar að því að hann geti lesið upp íslenskan texta með skýrum og auðskiljanlegum framburði, og eðlilegu tónfalli. Talgervlar fyrir íslensku verða þróaðir þannig að hægt verður að framleiða margar mismunandi raddir. Þannig geta þeir sem vilja bæta sjálfvirkum upplestri eða talsvörun við sín kerfi samþætt talgervingu við sinn hugbúnað.

  • Vélrænar þýðingar

Í vélrænum þýðingum eru tölvur notaðar til að þýða texta úr einu tungumáli yfir á annað. Vélrænar þýðingar geta þannig flýtt fyrir öllu starfi þýðenda og styrkt stöðu smærri tungumála verulega, með því t.d. að bjóða upp á rauntímaþýðingar á sjónvarpsefni, og draga verulega úr kostnaði.

  • Sjálfvirkar leiðréttingar

Hugbúnaður til málrýni getur hjálpað verulega við leiðréttingar á stafsetningu og málfari, og getur veitt margvíslegar leiðbeiningar við textaskrif. Auk þess að nýtast öllum almenningi við almenn skrif getur sérhæfð málrýni nýst fjölbreyttum hópi notenda: starfsfólki fyrirtækja og stofnana, börnum, fólki með íslensku sem annað mál, lesblindum, o.s.frv. Málrýni er líka mjög mikilvæg fyrir þróun annars konar máltæknihugbúnaðar, t.d. leitarvéla og vélþýðinga, og til að gera ljóslesna texta nothæfa í stafrænu umhverfi.

  • Málföng

Undir málföng falla málleg gagnasöfn og stoðtól. Málleg gagnasöfn skiptast í texta- og orðasöfn ásamt talgögnum. Þau nýtast til að mynda við þjálfun á mál- og hljóðlíkönum fyrir mismunandi máltæknihugbúnað. Stoðtól eru nauðsynleg til þess að útbúa gögn til notkunar í máltækni, en þau framkvæma einnig grunngreiningu á texta, sem oft er fyrsta skref í flóknari máltæknihugbúnaði. Nægilegt magn viðeigandi gagna og áreiðanleg stoðtól eru grunnur og forsenda allrar þróunar í máltækni.

Nánar um verkefnið á vef Almannaróms

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira