Hoppa yfir valmynd
18. maí 2022 Forsætisráðuneytið

Fyrsta opinbera heimsókn íslensks forsætisráðherra til Grænlands síðan 1998

Múte B. Egede, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. - mynd

Áframhaldandi gott samstarf Íslands og Grænlands var efst á baugi í opinberri heimsókn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til Nuuk sem fram fór í gær og fyrradag. Heimsóknin var í boði Múte B. Egede, formanns grænlensku landsstjórnarinnar, og fyrsta heimsókn íslensks forsætisráðherra til Grænlands síðan árið 1998. Á fundi þeirra Katrínar var rætt um náið samstarf landanna og þau tækifæri sem eru fyrir hendi til að efla samskiptin enn frekar. Þar voru Katrín og Múte sammála um að leggja áherslu á mögulegan fríverslunarsamning, sjávarútveg og ferðaþjónustu, menntun og rannsóknir, jafnrétti og orku- og loftslagsmál. Þau fyrirhuga annan fund síðar á árinu til að formgera þessa samskipti frekar.

Þau ræddu einnig sérstaklega þær áskoranir sem löndin tvö standa frammi fyrir á sviði loftslagsmála þar sem bráðnun jökla og önnur áhrif hlýnunar jarðar raungerast á degi hverjum. Ráðherrarnir ræddu einnig stöðuna á alþjóðavettvangi, auðlindanýtingu og ýmis samfélagsmál sem Ísland og Grænland eiga sameiginleg.

„Íslendingar og Grænlendingar eru nágrannar og vinir og eiga margvíslega sameiginlega hagsmuni. Það eru mikil tækifæri til aukins samstarfs á sviði loftslags- og orkumála, verslunar og viðskipta, aukinnar verðmætasköpunar í sjávarútvegi og ferðaþjónustu, jafnréttismála og menntunar og rannsókna. Það er mjög jákvætt að við stefnum nú að því að formfesta þessi samskipti og ég sé fyrir mér að samstarfið verði kröftugra og skapi enn fleiri tækifæri.“

Forsætisráðherra átti einnig fund með Naaju Nathanielsen, fjármálaráðherra Grænlands, en hún er einnig ráðherra jafnréttismála. Á þeim fundi var einkum rætt um stöðu efnahagsmála í löndunum eftir Covid og hvernig auka má efnahagssamstarf Íslands og Grænlands, þ.m.t. í ferðaþjónustu. Einnig var rætt um hvernig efla megi stjórnsýslu í fámennari löndum og sammæltust ráðherrarnir um leggja áherslu á að stuðla að starfsmannaskiptum sérfræðinga innan stjórnsýslunnar á milli landanna til að deila þekkingu og reynslu.

Þá heimsótti Katrín grænlenska þingið þar sem Kim Kielsen, forseti þingsins, tók á móti henni og Þjóðminjasafn Grænlands. Forsætisráðherra heimsótti einnig háskólann í Nuuk og átti samtal við nemendur og kennara þar sem sjónum var beint að jafnréttismálum og aðstæðum grænlenskra kvenna. Þá heimsótti hún loftslagsstofnunina í Nuuk þar sem rætt var um rannsóknarstarf á sviði náttúruvísinda og loftslagsmála áhrif loftslagsbreytinga á náttúru og samfélag og aðgerðir til að bregðast við þeim. Loks hitti forsætisráðherra grænlenskar konur úr stjórnmálum, viðskiptum, menningu og háskólasamfélagi og ræddi um þær áskoranir og tækifæri sem eru fyrir hendi í löndunum tveimur, sem og í samstarfi Íslands og Grænlands.

 

Naaja Nathanielsen, fjármála- og jafnréttisráðherra Grænlands, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra     Kim Kielsen, forseti grænlenska þingsins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra
     

            

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum