Hoppa yfir valmynd
19. maí 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Þróun gervigreindartækni nýtist tungumálum eins og íslensku

Sendinefndin hjá OpenAI - mynd


„Eitt af því sem liðsinnt getur framþróun tungumála eins og íslensku er ör þróun gervigreindar, þar felast mörg tækifæri sem flest eru ókönnuð enn,“ segir  Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti fyrirtækið OpenAI í San Fransisco í vikunni. Heimsóknin var liður í fundaröð sendinefndar Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands til Bandaríkjanna sem miðar að því tryggja að íslenska verði hluti af stafrænum tæknilausnum framtíðarinnar.

Fyrirtækið OpenAI var stofnað árið 2015 og er leiðandi í alþjóðlegri umræðu um opið aðgengi að gervigreindartækni, og ábyrga og örugga þróun hennar fyrir heimsbyggðina alla. Fram kom í máli Sam Altmans, eins af stofnendum fyrirtækisins, að þróun gervigreindartækni hafi verið ótrúlega hröð síðustu ár og nú séu komin fram kraftmikil kerfi sem fær eru um byltingarkennda hluti sem geti haft gríðarleg áhrif á líf fólks og samfélög. Því sé brýnt að huga að fjölþættu samspili stefnumótunar og tækniþróunarinnar og að hlutverki stjórnvalda í því samhengi.


Meðal þess sem starfsfólk OpenAI kynntu á fundinum voru rannsóknir byggðar á hagnýtingu gervigreindartækni til að kortleggja hatursorðræðu og hlutdrægni í stafrænum textum og tæknilausn sem greinir og skapar stafrænar myndir út frá einföldum textalýsingum. Þá spreytti þýðingarvél byggð á núverandi tungumálasafni fyrirtækisins sig á rauntímaþýðingu á Hávamálum, með nokkuð eftirtektarverðum árangri.

„Þetta var afar fróðlegur fundur, þróun ábyrgrar gervigreindar kallar ekki aðeins á nána samvinnu okkar færa vísindafólks og frumkvöðla, heldur einnig á samtal þjóða og ríkja heims um hvernig best megi tryggja jöfnuð og aðgengi að þeim gæðum sem gervigreindin getur skapað. Að mínu mati þurfum við að móta nýjan samfélagssáttmála, til þess að tryggja að tæknin leiði ekki til sundrungar heldur samheldni. Á fundinum kynntum við þau gögn og afurðir sem máltækniáætlunin hefur alið af sér, og mikilvægi þeirra fyrir framtíð íslenskunnar – þar sjáum við mikil sóknarfæri sem fundarmenn lýstu yfir áhuga á að skoða nánar. Ég hlakka til að fylgja þeim málum eftir í góðri samvinnu,“ segir ráðherra. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira