Hoppa yfir valmynd
23. maí 2022 Innviðaráðuneytið

Innrás í Úkraínu fordæmd í sameiginlegri yfirlýsingu 37 evrópskra samgönguráðherra

Fulltrúar þjóðanna sem samþykktu yfirlýsingu um að fordæma árás Rússa í Úkraínu á ársþingi ITF. - mynd

Innrás Rússa í Úkraínu er fordæmd í sameiginlegri yfirlýsingu 37 evrópskra samgönguráðherra, sem samþykkt var á ársfundi alþjóðasamtaka samgönguráðherra (International Transport Forum - IFT). Fundurinn var haldinn í Leipzig dagana 18.-20. maí.

Í yfirlýsingunni er skorað á stjórnvöld í Rússlandi að stöðva þegar í stað hernaðaraðgerðir og draga herlið sitt tafarlaust frá Úkraínu. Innrás Rússa hafi verið mannskæð, valdið hörmungum fyrir úkraínsku þjóðina, þ.m.t einum mesta fólksflótta í kjölfar innrásarinnar frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Innrásin hafi ennfremur valdið ómældu tjóni á mikilvægum innviðum í landinu, sem skapa grundvöll fyrir efnahag landsins og lífvænlegt samfélag. 

Ríkin sem standa að yfirlýsingunni heita því að slíta öllu alþjóðlegu samstarfi við Rússland og Hvíta-Rússland á vettvangi ITF og leggja til að sérþekking innan ITF verði nýtt til að styðja við bakið á lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum í Úkraínu að byggja upp innvið landsins að nýju.

International Transport Forum (ITF) er sjálfstæð eining innan OECD (Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu). Innan vébanda ITF eru 64 aðildarríki.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum