Hoppa yfir valmynd
27. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Sjö íslensk félagasamtök hljóta styrki til þróunarsamvinnuverkefna í Afríku

Utanríkisráðuneytið hefur gert samninga við sjö íslensk félagasamtök um styrki vegna þróunarsamvinnuverkefna víðsvegar í ríkjum í Afríku. Árlega eru veittir styrkir til slíkra verkefna undir hatti samstarfs ráðuneytisins við félagasamtök í þróunarsamvinnu en fjölbreytt flóra samtaka er til staðar hér á landi. Íslensk félagasamtök gegna mikilvægu hlutverki sem samstarfsaðilar í þróunarsamvinnu. Markmiðið með samstarfi ráðuneytisins og félagasamtaka er meðal annars að draga úr fátækt og að leggja lóð á vogarskálarnar í þágu sjálfstæðs, þróttmikils og fjölbreytilegs borgaralegs samfélags í þróunarríkjum.

Auglýstar voru allt að 50 milljónir króna til úthlutunar árið 2022 og bárust alls níu umsóknir frá átta félagasamtökum að heildarupphæð 132 milljónir króna. Því var eftirspurn eftir styrkjum töluvert umfram það sem auglýst var. Þess ber að geta að stærstu félagasamtökin í þróunarsamvinnu; Barnaheill á Íslandi, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði krossinn og SOS Barnaþorp eru með rammasamning við ráðuneytið til þriggja ára og sækja ekki um einstaka styrki.

Styrktarfélagið Broskarlar fær áframhaldandi stuðning til tveggja ára fyrir verkefnið „menntun í ferðatösku.“ Verkefnið miðar að því að aðstoða börn sem búa við sárafátækt á völdum svæðum í Kenía við að ná betri tökum á stærðfræði (með hvatakerfi) og auka þannig möguleika þeirra á að ná inntökuskilyrðum til að hefja háskólanám.

ABC barnahjálp hlýtur styrk til eins árs til að styðja við uppbyggingu á kvennadeild, barnadeild og almennri deild á Rackoko heilsugæslunni í Pader héraði í Úganda. ABC hefur unnið að uppbyggingu á svæðinu síðan 2007, einkum varðandi uppbyggingu skóla og menntunar. Samstarfsaðili er ABC Children’s Aid Uganda.

Aurora velgerðarsjóður fær styrk til eins árs vegna verkefnis um valdeflingu ungmenna, í Freetown og víðar í Síerra Leóne, með þjálfun í upplýsingatækni og viðskiptarekstri. Miðar verkefnið að því að ungt fólk öðlist tækifæri og þekkingu til að gera varanlega breytingu á eigin lífi.

Candle Light Foundation á Íslandi fær styrk til eins árs til að bæta aðgengi fatlaðra stúlkna sem sækja Candle Light skólann í Úganda. Áhersla er lögð á að gera öll svæði skólans aðgengileg, sett séu upp hjálpartæki á salerni, uppsetningu rampa og að skólalóð verði þannig úr garði gerð að notendur hjólastóla og annarra hjálpartækja komist leiðar sinnar hjálparlaust.

Landssamtökin Þroskahjálp hljóta styrk til eins árs til verkefnis sem nefnist samráðsvettvangur um stuðning við fötluð börn í Mangochi, Malaví. Markmið verkefnisins er þríþætt: að auka samstarf og samráð um málefni fatlaðra barna í Mangochi, að fjölga fötluðum börnum sem sækja skóla og leikskóla og styðja mæður fatlaðra barna til að stofna foreldrasamtök/hagsmunasamtök í héraðinu.

Samband Íslenskra Kristniboðsfélaga fær styrk til eins árs vegna stuðnings við menntun barna og ungmenna í vestanverðri Pókot sýslu í Kenía. Unnið er gegn kynjahalla í framhaldsskólum með því að hlúa að hagsmunum ungra stúlkna sem frekar virðast flosna upp úr námi en drengir. Er það gert með byggingu heimavista fyrir stúlkur við framhaldsskóla til að auka öryggistilfinningu þeirra.

Vinir Kenía fá nýliðastyrk sem snýr að vatnsöflun til skóla í Tansaníu. Rúmlega 2500 börn stunda nám við skólann og mun verkefnið tryggja þeim aðgengi að hreinu vatni allan ársins hring. Undir núverandi fyrirkomulagi fær skólinn vatn einu sinni í viku sem dugir skammt ásamt því að kostnaðurinn er talsverður. Mörg börn koma með vatn á brúsa í skólann eða þurfa að sækja það með því að ferðast talsverða vegalengd sem getur verið hættulegt.

Umsóknarfrestir fyrir verkefni á sviði þróunarsamvinnu eru auglýstir árlega. Næsta úthlutun er áætluð í byrjun árs 2023. Sjá nánar á vef stjórnarráðsins.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir alla
3. Heilsa og vellíðan
8. Góð atvinna og hagvöxtur
5. Jafnrétti kynjanna
6. Hreint vatn og hreint

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira