Hoppa yfir valmynd
30. maí 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra opnar starfstöðvar í Mývatnssveit

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, opnaði í dag formlega starfsstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs, Umhverfisstofnunar, Landgræðslunnar og Náttúrurannsóknarstöðvarinnar á Mývatni.  - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, opnaði í dag formlega starfsstöð Vatnajökulsþjóðgarðs, Umhverfisstofnunar, Landgræðslunnar og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (Ramý)  á Skútustöðum í  Mývatnssveit.

Ríkið festi á síðasta ári kaup á fasteigninni Hótel Gíg á Skútustöðum í Mývatnssveit, sem upphaflega gegndi hlutverki barnaskóla sveitarinnar, og er breytingum á þeim hluta hússins þar sem starfsstöðvar stofnanna nú að ljúka. 

Gígur á einnig að hýsa sameiginlega gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs og náttúruverndarsvæða í Mývatnssveit, þar sem verður að finna upplýsingar og sýningu um þjóðgarðinn og verndarsvæði Mývatns og Laxár. Þá mun Gígur hýsa rannsóknarsetur á sviði hugvísinda í sameinuðu sveitarfélagi Suður-Þingeyjarsýslu. Fékk ráðherra einnig kynningu á þeim hluta hússins sem enn er á framkvæmdastigi.

Gígur stendur á einstökum útsýnisstað við Mývatn og þóttu kaup á því hagstæður kostur fyrir ríkissjóð sem gætu um leið skapað tækifæri í Mývatnssveit. Skútustaðahreppur hefur áform um að nýta hluta af húsnæðinu undir atvinnuskapandi nýsköpun og þekkingarsetur. Einnig gefst möguleiki á að útbúa þar starfsaðstöðu fyrir opinber störf án staðsetningar, t.d. á vegum annarra stofnana ríkisins, háskóla og rannsóknaraðila.

„Með Gíg verða meginstarfstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs orðnar fimm. Ég hef verið mikill talsmaður þess að heimamenn séu lykilaðili í að koma góðum málum á framfæri. Það er því sérstaklega ánægjulegt og gleðilegt ef sveitarfélagið sér fram á að geta nýtt húsnæðið fyrir frekari atvinnusköpun og nýsköpun til framfara fyrir samfélagið. Ég hef fullan trú á því að þetta fyrirkomulag sem hér er viðhaft geti verið góð fyrirmynd fyrir sambærileg verkefni annars staðar á landsbyggðinni,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er kveðið á um lögbundin áform ríkisins um að halda úti sex meginstarfsstöðvum þjóðgarðsins sem mynda þjónustunet. Þegar hafa meginstarfsstöðvar í Ásbyrgi, Skaftafelli, á Skriðuklaustri og Hornafirði verið settar á laggirnar og bygging meginstarfsstöðvar á Kirkjubæjarklaustri er hafin. Með uppbyggingu gestastofu í Mývatnssveit er því búið að fullnusta uppbyggingu þessa mikilvæga þjónustunets Vatnajökulsþjóðgarðs.

 
  • Ráðherra opnar starfstöðvar í  Mývatnssveit - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum