Hoppa yfir valmynd
30. maí 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tímamótasamningur UNICEF á Íslandi og mennta- og barnamálaráðuneytisins

Ásmundur Einar Daðason og Birna Þórarinsdóttir undirrita samning í Laugarnesskóla - mynd

Það var hátíðleg stund í Laugarnesskóla í morgun þegar Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, undirrituðu samninga til tveggja ára um stuðning við verkefnin Barnvæn sveitarfélög og Réttindaskóli og -frístund. Það var ekki tilviljun að undirritunin fór fram í Laugarnesskóla en skólinn var meðal fyrstu Réttindaskóla UNICEF á Íslandi. Skólinn fékk viðurkenninguna árið 2017 og hefur unnið markvisst að innleiðingu Barnasáttmálans í öllu sínu skólastarfi og verið fyrirmynd fyrir aðra skóla sem hafa tekið þátt í verkefninu.

„Ég er bæði glöð og þakklát fyrir að fá að vera með ykkur hér í dag. Við vorum að gera hér risastórt loforð um að vinna saman að því að tryggja réttindi barna í skólum og bæjum út um allt land. Við erum þakklát fyrir það traust sem mennta- og barnamálaráðuneytið sýnir okkur og við erum mjög spennt fyrir framhaldinu,“ sagði Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, eftir að samningar höfðu verið undirritaðir.

Samningur UNICEF á Íslandi og ráðuneytisins er gífurlega þýðingarmikill og gerir UNICEF á Íslandi kleift að veita skólum og sveitarfélögum um allt land ráðgjöf og fræðslu við innleiðingu Barnasáttmálans. Í dag vinna 45 grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar með UNICEF að verkefninu Réttindaskóli og -frístund. Verkefnið Barnvæn sveitarfélög fer einnig ört vaxandi og í dag býr yfir helmingur barna á Íslandi í sveitarfélögum sem vinna að því að innleiða Barnasáttmálann með markvissum hætti í alla sína stjórnsýslu og starfsemi með stuðningi frá UNICEF á Íslandi.

„Með þessum samningi munum við og UNICEF gera fleiri börnum og fullorðnum kleift að þekkja og rækta réttindi barna og leyfa röddum barna að heyrast í skólanum og úti í samfélaginu. Það er mikilvægt að við hlustum á börn og gefum þeim tækifæri til að tjá skoðanir sínar. Ég er spenntur fyrir vinnunni fram undan að því að byggja barnvænt Ísland,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Nánar um verkefnin

Verkefnið Barnvæn sveitarfélög er hluti af opinberri stefnu um Barnvænt Ísland sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið vor en markmiðið er að öll sveitarfélög innleiði Barnasáttmálann á markvissan hátt. Nánari upplýsingar má nálgast á vef Barnvænna sveitarfélaga og geta áhugasamir einstaklingar, kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélaga nálgast þar allar nauðsynlegar upplýsingar um innleiðingu Barnasáttmálans.

Réttindaskóli og -frístund snýst um að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðina í allt starf og ákvarðanir í skóla- og frístundastarfi. Markmiðið er að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Nánari upplýsingar er að finna á vef Réttindaskóla og -frístundar UNICEF á Íslandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum