Hoppa yfir valmynd
31. maí 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Alþjóðlegur baráttudagur gegn tóbaksnotkun 31. maí

WHO: Tóbak mengar jörðina og skaðar heilsu fólks - myndWHO

Árlegur alþjóðlegur baráttudagur gegn tóbaksnotkun, 31. maí, er í ár helgaður tóbaki sem ógn við umhverfi okkar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin beinir athyglinni að neikvæðum umhverfisáhrifum tóbaks og varpar ljósi á hnattræn skaðleg áhrif tóbaksnotkunar á umhverfi, efnahag, samfélög og heilsu manna. Fjallað er um daginn á vef embættis landlæknis.

Skaðinn sem tóbaksnotkun veldur er vel þekktur en yfir 8 milljónir manna látast árlega af völdum tóbaksnotkunar. Tóbaksframleiðslan skaðar umhverfi okkar allt frá ræktun og framleiðslu, gegnum dreifingu og neyslu og að lokum sem úrgangur. Skaðlegu áhrifin halda áfram að aukast með óþarfa þrýstingi á auðlindir jarðarinnar og viðkvæmt vistkerfi.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvetur alla, sérstaklega ungt fólk, til að kalla eftir stefnu þar sem tóbaksiðnaðurinn er látinn taka ábyrgð á þeim umhverfisáhrifum sem hann veldur.

Dregið hefur úr reykingum hér á landi undanfarna áratugi, bæði meðal karla og kvenna. Daglegar reykingar mælast nú um 6% það sem af er þessu ári meðal fullorðinna. Hjá ungu fólki 18-24 ára eru daglegar reykingar þó enn minni eða rúmlega 1%.

Notkun á tóbaki í vör sem hefur verið umtalsverð meðal ungs fólks undanfarin ár mælist nú mjög lítil. Notkun á tóbaki í vör er að víkja vegna mikillar aukningar í notkun á nikótínpúðum. Innflutningur á nikótínpúðum til landsins jókst mikið um áramótin 2019-2020. Um þriðjungur karla á aldrinum 18 til 44 ára og kvenna 18 til 24 ára notar nikótínpúða og algengast er að um daglega notkun sé að ræða.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum