Hoppa yfir valmynd
1. júní 2022 Innviðaráðuneytið

Húsaleigubætur hækka um 10% frá og með 1. júní

Húsaleigubætur hækka um 10% frá og með deginum í dag. Hækkunin er liður í mótvægisaðgerðum stjórnvalda til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins. Hækkunin var ásamt öðrum mótvægisaðgerðum samþykkt á Alþingi með breytingu á ýmsum lögum 24. maí sl. 

Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta hækka um 10% frá 1. júní. Þá hækka frítekjumörk húsnæðisbóta um 3% afturvirkt frá 1. janúar 2022, til samræmis við hækkun bóta almannatrygginga. Kostnaður við hækkunina nemur um 600 m.kr. á yfirstandandi ári og um 1 ma.kr. á ársgrundvelli. Samkvæmt mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er tæplega helmingur heimila á leigumarkaði í húsnæðisbótakerfinu. Áætlað er að a.m.k. 70% þeirra séu með vísitölutengda leigusamninga.

Í greinargerð með frumvarpinu sem samþykkt var á Alþingi segir að hækkun húsnæðisbóta og frítekjumarka þeirra væri „til þess fallin að styðja við tekjulægstu hópa leigjenda. Viðtakendur húsnæðisbóta eru að meiri hluta til barnlaus heimili. Hlutfall kvenna og karla í þeim hópi er nokkuð jafnt enda þótt konur séu líklegri en karlar til að vera á leigumarkaði ásamt því að vera líklegri en karlar til að leigja félagslegt húsnæði af sveitarfélögum eða námsmannahúsnæði.“

Meðal annarra mótvægisaðgerða sem samþykktar voru eru að bætur almannatrygginga hækka um 3% frá 1. júní og að greiddur verði sérstakur barnabótaauki til þeirra sem fá tekjutengdar barnabætur að fjárhæð 20.000 kr. með hverju barni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira