Hoppa yfir valmynd
1. júní 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Íslenskt ál það umhverfisvænasta á heimsvísu

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ávarpar gesti á ársfundi Samáls - mynd

Íslenskur áliðnaður er á grænni vegferð og stefnir á kolefnishlutleysi 2050. Í ávarpi sínu á ársfundi Samáls sem fram fór í gær fjallaði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um hlutverk áliðnaðar í loftslagsmálum, en yfirskrift fundarins var „Græn vegferð í áliðnaði“.

Loftslagsmálin brenna á samfélaginu og kallað er eftir umhverfisvænni lausnum  á öllum sviðum samfélagsins. Þar skiptir ál miklu máli enda notað í nánast allan nútíma tæknibúnað svo sem rafbíla, snjalltæki, vindmyllur og sólarsellur. „Það er sérstakt fagnaðarefni að kolefnisfótspor íslenskra álvera er gríðarlega lágt í samanburði við álver annarsstaðar í heiminum, sennilega er það eitt af því lægsta í heimi“ sagði Áslaug Arna, „en betur má ef duga skal.“ Ráðherra vakti einnig athygli á að íslenskur áliðnaður skilar nú besta rekstrarári sögunnar í orkuiðnaði, bæði í aliðnaði og orkugeiranum. Þá má í fyrsta sinn rekja virðisaukningu íslensks áls til umhverfisvænnar framleiðslu.

Ísland skarar fram úr í sjálfærri og endurnýjanlegri orkuframleiðslu

Ljóst er að í dag nýtur íslenska þjóðin góðs af þeirri framsýni sem fólst í því að ráðast í uppbyggingu á orkusæknum iðnaði sem á rætur sínar að rekja til ársins 1969 þegar álframleiðsla hófst í Straumsvík. Samhliða uppbyggingunni varð Landsvirkjun til en í dag er fyrirtækið eitt það stöndugasta hér á landi. Uppbyggingin hefur einnig tryggt öflugt raforkuflutningskerfi sem hefur skapað ótal tækifæri í ótengdum greinum í gegnum tíðina.

Útflutningsverðmæti stóriðju jukust um 42 milljarða króna á fyrsta fjórðungi og hafa aldrei mælst hærri. Það sama á við um útflutningsverðmæti sjávarafurða sem jukust um 20 milljarða króna og útflutningsverðmæti ferðaþjónustu sem jókst um 44 milljarða króna. Allar þessar stoðir vinna saman og fyrir vikið skiluðu orkufyrirtæki landsins, sem eru að mestu í opinberri eigu, metafkomu.

Á hagkvæman, og í dag umhverfisvænan, hátt hefur tekist að tryggja lágt raforkuverð til almennings, afhendingaröryggi raforku í fámennu og harðbýlu landi er með því mesta sem þekkist og framúrskarandi árangur í orkuskiptum með nýtingu endurnýjanlegrar orku. Stoðum hefur fjölgað í efnahagslífinu, dregið hefur úr sveiflum og lífsgæði á Íslandi hafa vaxið hraðar á Íslandi en annars staðar í Evrópu. Þá eru ótalin öll þau verðmætu störf sem skapast hafa, þekkingu sem byggst hefur upp og tækifærin sem skapast fyrir komandi kynslóðir. Þannig hefur verið ýtt undir framfarir, nýjar viðskiptahugmyndir og nýjar lausnir. 

Íslenskt hugvit nýtt gegn loftslagsvandanum

Ráðherra fagnaði sérstaklega samstarfi Carbfix og RioTinto sem kynnt var undir lok síðasta árs. Carbfix nýtir íslenskt hugvit til að takast á við loftslagsvandann með því að fanga CO2 og steingerva með litlum tilkostnaði. Réttilega hefur verið tekið eftir þessari lausn utan landsteinanna. „Með samstarfi fyrirtækjanna tveggja er markmiðið ekki aðeins að fanga kolefni frá álverinu í Straumsvík með því að einangra straum CO2 úr útblæstrinum, heldur á einnig að setja upp sérstaka móttöku- og förgunarstöð þar sem farga á kolefni frá öðrum löndum“ útskýrði Áslaug Arna og bætti því við að um sé að ræða kjörið tækifæri fyrir Íslendinga að verða leiðandi á þessu sviði.

Samstarf Carbfix og RioTinto gefur góð fyrirheit um að kolefnishlutleysi íslenskrar álframleiðslu sé senn í sjónmáli. Mikilvægt er þó að íslensk stjórnvöld styðji vel við nýsköpun, rannsóknir og þróun á sviði loftslagslausna. Aukið samstarf stjórnvalda, stóriðjufyrirtækja og rannsóknarsamfélagsins hefur nú þegar gefið góða raun og sem dæmi má nefna samstarf kanadískra stjórnvalda með RioTinto, Alcoa og Apple þar sem unnið er að þróun kolefnislausra skauta sem hafa enga losun kolefnis í för með sér. Ráðherra benti á að „óvenjulegir tímar krefjast óvenjulegra lausna og íslensk stjórnvöld þurfa að vera reiðubúin til þess að hugsa út fyrir kassann í samstarfi við fyrirtæki á sviði loftslagsverndar“.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira