Hoppa yfir valmynd
3. júní 2022 Forsætisráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ríkisstjórnin styrkir verkefnið Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi

Ríkisstjórnin styrkir verkefnið Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi - myndMynd frá Stofnun Árna Magnússonar

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að styrkja Stofnun Árna Magnússonar og Heiðursráð Þjóðræknisfélags Íslendinga um 5 m.kr. af ráðstöfunarfé sínu vegna vinnu við uppbyggingu gagnagrunns um handrit og önnur vestur-íslensk menningarverðmæti. Tillaga þess efnis frá forsætisráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra var samþykkt á fundi ríkisstjórnar í morgun.

Verkefnið sem hefur fengið heitið Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi felur í sér að finna og safna upplýsingum um handrit og önnur vestur-íslensk menningarverðmæti og skrá þær upplýsingar á stafrænt form. Gert er ráð fyrir því að gagnagrunnurinn muni tengjast öðrum gagnagrunnum sem fyrir eru hjá Stofnun Árna Magnússonar.

Stefnt er að því að ljúka fyrsta áfanga verkefnisins haustið 2023 með ráðstefnu um vesturheimsfræði í nýju Húsi íslenskunnar og bjóða þangað lykilfólki frá Kanada og Bandaríkjunum. Áætlað er að vinna við uppbyggingu, hönnun og tengingu gagnagrunnsins við aðra gagnagrunna taki þrjú ár og að kostnaðurinn verði 27 m.kr. Ríkisstjórnin veitti í nóvember 2020 5 m.kr. styrk til verkefnisins sem nýttist við hönnun gagnagrunnsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira