Hoppa yfir valmynd
6. júní 2022 Utanríkisráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

Bragi Guðbrandsson endurkjörinn í nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins

Frá atkvæðagreiðslunni í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. - mynd

Bragi Guðbrandsson var í dag endurkjörinn í nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins til næstu fjögurra ára á fundi aðildarríkja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í New York. Bragi fékk mjög góða kosningu eða 140 atkvæði af 186 greiddum atkvæðum. Flest atkvæði fékk frambjóðandi Argentínu, sem hlaut 142 atkvæði. Fimmtán frambjóðendur sóttust eftir níu sætum í nefndinni.

„Ég er afskaplega þakklátur fyrir það mikla traust sem mér hefur verið sýnt með þessari góðu kosningu. Það er mikið starf sem liggur fyrir nefndinni í málefnum barna, ekki síst í kjölfar heimsfaraldursins og mikið ánægjuefni að fá að takast á við það verkefni næstu árin,“ sagði Bragi þegar niðurstaðan lá fyrir.

Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (e. Committee on the Rights of the Child) hefur aðsetur í Genf í Sviss. Verkefni hennar er að fylgjast með framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og bókana við hann. Nefndin er skipuð átján sjálfstæðum, óháðum sérfræðingum, sem kosnir eru til fjögurra ára í senn. Aðildarríkin kjósa níu sérfræðinga í júní annað hvert ár.

Bragi Guðbrandsson var fyrst kjörinn í nefndina fyrir fjórum árum síðan. Í kjölfar þess að Bragi ákvað að gefa aftur kost á sér, með stuðningi félags- og barnamálaráðuneytis, síðar mennta- og barnamálaráðuneytis, var utanríkisráðuneytinu falið að afla framboðinu stuðnings meðal 196 aðildarríkja samningsins um réttindi barnsins. Þungi framboðsvinnunnar fór fram í New York, enda halda velflest aðildarríki samningsins þar úti fastanefnd hjá Sameinuðu þjóðunum.

  • Bragi Guðbrandsson með starfsfólki fastanefndar Íslands í New York og ráðuneytisins.
  • Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, skilar atkvæði Íslands í kjörkassann.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira