Hoppa yfir valmynd
7. júní 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Virkja þarf hugvit, þekkingu og nýsköpun til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi

Í opnunarávarpi á Startup Iceland gerði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, það að máli sínu að íslenska þjóðin þurfi að gera grundvallarbreytingar á lifnaðarháttum ef ná á markmiðum um kolefnishlutleysi.

Með aðild að Parísarsamkomulaginu hefur Ísland skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030 og ná algjöru kolefnishlutleysi eigi síðar en tíu árum síðar. Þá hafa íslensk stjórnvöld tilkynnt að stefnt sé að 55% lækkun á skaðlegum útblæstri fyrir árið 2030. Með þessu hefur Ísland skipað sér sess í hópi metnaðarfyllstu þjóða heims þegar kemur að áformum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

 

Nýsköpun og þróun í orkuframleiðslu lykilþáttur í baráttunni við loftslagsvandann

Þrátt fyrir að hafa verið frumkvöðlar í nýtingu umhverfisvænna orkugjafa, svo sem vatnsorku og jarðhita, og í dag leiðtogar á heimsvísu þegar kemur að endurnýjanlegri orkuframleiðslu og sérþekkingu á því sviði, þarf íslenska þjóðin að taka höndum saman til að ná settum markmiðum. „Við þurfum að gjörbreyta hugsunarháttum og hegðun á alla kanta,“ segir ráðherra. „Allt þjóðfélagið þarf að vinna saman að uppbyggingu og þróun framtíðarsamfélags sem byggir á hringrásarhagkerfi og sjálfbærum lifnaðarháttum“.

Lykilatriði í þessari þróun er að nýta allar auðlindir og að setja vísindi, rannsóknir og nýsköpun í fyrsta sætið við ákvarðanatöku. „Virkja þarf hugvit, þekkingu og nýsköpun til að knýja fram aukna sjálfbærni á eins mörgum sviðum og mögulegt er,“ ítrekar ráðherra. „Við sem þjóðfélag, sem og heimurinn allur, stöndum frammi fyrir gríðarlega umfangsmiklu verkefni sem aðeins verður leyst með nýsköpun og þróun á alla kanta“.

 

Íslenskt hugvit brautryðjandi í loftslagslausnum

Sem auðlindaríkt land stendur Ísland vel að vígi í þessum efnum. Með auknum áherslum á nýsköpun og þróun í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa getur íslenskt hugvit rutt veginn í loftslagsbaráttunni, t.d. með því að finna nýjar lausnir til að draga úr gróðurhúsalofttegundum og binda kolefni úr andrúmsloftinu. Þónokkur íslensk frumkvöðlafyrirtæki hafa nú þegar náð góðum árangri á þessu sviði. Í ávarpi sínu nefndi ráðherra dæmi um nokkur slík, þeirra á meðal ORF líftækni sem náð hefur góðum árangri í framleiðslu dýravaxtarþátta fyrir stofnfrumuræktað kjöt en kolefnislosun við framleiðslu þess er allt að 96% lægri en við framleiðslu sama magns af því kjöti sem við neytum í dag. Þá fjallaði ráðherra einnig um árangur Pure North Recycling sem nýtir jarðvarma til endurvinnslu og lækkar þar með bæði kostnað og kolefnislosun um allt að 80% og Atmonia sem þróað hefur umhverfisvæna ammóníuframleiðslu án neinnar losunar kolefna í andrúmsloftið.

„Allt skiptir máli. Losun gróðurhúsalofttegunda, súrnun sjávar, plastmengun og kolefnisfótspor matvælaframleiðslu eru stór vandamál alls staðar í heiminum,“ segir Áslaug Arna. „Með nýsköpun leggjum við okkar af mörkum í baráttunni gegn þessum vandamálum.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum