Hoppa yfir valmynd
8. júní 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Efnilegir höfundar fengu nýræktarstyrk

Nýræktarstyrki í ár hljóta þau Guðmundur Magnússon, Nína Ólafsdóttir og Örvar Smárason, en Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra afhenti þá. Miðstöð íslenskra bókmennta veitir styrkina til nýrra höfunda og nemur hver styrkur 500 þúsund krónum. 60 umsóknir bárust um Nýræktarstyrki í ár. Verkin sem hljóta viðurkenninguna í ár eru afar fjölbreytt, ein ljóðabók, ein skáldsaga og eitt smásagnasafn og yrkisefnin eru af ýmsum toga; baráttan við geðsjúkdóma, ægivald náttúrunnar á heimskautaslóðum og mörk hins hversdaglega og hins furðulega í lífi okkar. 

 

„Það er alltaf mikill gleðidagur þegar nýræktarstyrkir eru veittir og stutt er við sköpun nýrra rithöfunda,“ segir ráðherra. „Nýræktarstyrkirnir verða til þess að auka við flóru íslenskra höfunda og bókmennta, auðga líf okkar og hlúa að íslenskunni okkar.“

 

Árlega veitir Miðstöð íslenskra bókmennta Nýræktarstyrki fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira. Nýræktarstyrkir hafa verið veittir frá árinu 2008; tveir til fimm styrkir í hvert sinn og valið er úr innsendum handritum. Að vali styrkhafa standa bókmenntaráðgjafar Miðstöðvar íslenskra bókmennta, með samþykki stjórnar. Í ár eru ráðgjafar þau Hanna Steinunn Þorleifsdóttir og Ingi Björn Guðnason. 

 

Nánar hér á vef MÍB

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum