Hoppa yfir valmynd
9. júní 2022 Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Aðgerðir gegn þenslu og verðbólgu: Tillögur að breytingum á fjármálaáætlun lagðar fyrir fjárlaganefnd

Ríkisfjármálunum verður beitt til þess að vinna gegn þenslu og verðbólgu í hagkerfinu með breytingum á fjármálaáætlun sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti á fundi með fjárlaganefnd Alþingis síðdegis, fyrir síðari umræðu á Alþingi. Á fundi sínum miðvikudaginn 8. júní samþykkti ríkisstjórnin að ráðherra skyldi leggja tillögurnar fyrir nefndina.

Í maí sl. var ákveðið að ráðast í umfangsmiklar mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum verðbólgu á viðkvæmustu hópa samfélagsins. Þar var m.a. ráðist í hækkun bóta almannatrygginga og framfærsluviðmið örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega vegna sérstakrar uppbótar hækkað, grunnfjárhæðir húsnæðisbóta fyrir leigjendur hækkaðar umtalsvert og samþykkt að greiða út sérstakan barnabótaauka.

Sjá nánar: Ríkisstjórnin samþykkir mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu 

Með fyrirliggjandi tillögum nú er horft til þess að draga hraðar úr halla á ríkissjóði en samkvæmt framlagðri fjármálaáætlun, bæði í því skyni að draga úr þenslu og til þess að byggja upp styrk ríkissjóðs til að mæta óvæntum áföllum framtíðar.

Umfang þeirra aðgerða sem lagðar eru til nemur um 0,7% af vergri landsframleiðslu – eða 26 milljörðum króna. Slíkt umfang ráðstafana er áætlað að skili ríkissjóði vel á veg með enn frekari lækkun halla, auk þess að vega á móti þörf fyrir stýrivaxtahækkanir. Tillögurnar verða nánar útfærðar í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023.

Eftirfarandi eru helstu breytingar sem lagðar eru til á tekjuhlið:

  • Innleiðingu gjaldtöku til að vega á móti yfirstandandi tekjutapi vegna umferðar og eldsneytis, sem leiðir m.a. af mikilli fjölgun vistvænna bifreiða, verði flýtt:

Um 27,5 milljarðar hafa verið veittir í skattaívilnanir vegna vistvænna bíla á árunum 2012-2022, en auk þess bera slíkir bílar í fæstum tilvikum vörugjald við innflutning líkt og bílar sem ganga eingöngu fyrir eldsneyti og greiða lágmark bifreiðagjalds. Þá greiða eigendur hreinorkubifreiða eðli málsins samkvæmt engin vörugjöld af orkunotkun.

Tekjur ríkissjóðs af skattlagningu ökutækja og eldsneytis hafa dregist verulega saman og munu að öllu óbreyttu halda áfram að lækka. Samhliða miklum árangri í orkuskiptum er því unnið að innleiðingu á einfaldara og skilvirkara tekjuöflunarkerfi, sem samræmist þörf á áframhaldandi útgjöldum við nýframkvæmdir, viðhald og rekstur vegakerfisins.

Sjá nánar: Um 28 milljarðar í skattaívilnanir vegna vistvænna bíla 

 
  • Krónutölugjöld uppfærast með nýrri áætlun um verðlagsþróun, en hækki ekki umfram hana. 
  • Innleiddar verði nokkrar sértækar gjaldabreytingar. Gerð verði breyting á gjaldtöku í fríhöfn með nokkru minni afslætti á áfengisgjaldi og tóbaksgjaldi en nú er. Jafnframt verði fyrirkomulag og umfang verðmætagjalds vegna sjókvíeldis endurskoðað og varaflugvallagjald verði lagt á.  Þá er fyrirhugað að frá og með árinu 2024 verði ráðist í tekjuöflun af ferðamönnum í samráði við ferðaþjónustuna samhliða áframhaldandi innviðauppbyggingu og álagsstýringu í tengslum við vaxandi straum ferðamanna til landsins.

Eftirfarandi eru helstu breytingar sem lagðar eru til á útgjaldahlið:

  • Lækkun ferðakostnaðar hjá ríkinu verði gerð varanleg. Um er að ræða um 640 m.kr. í lækkun ferðakostnaðar sem að óbreyttu hefði gengið til baka. Dregið hefur úr þörf á ferðalögum í samræmi við loftslagsstefnu Stjórnarráðsins og í kjölfar heimsfaraldursins. 
  • Forsendur um aðhald málefnasviða verði tímabundið á árinu 2023 í samræmi við forsendur fjárlaga ársins 2022 að því frátöldu að ekkert aðhaldsmarkmið verði sett fyrir heilbrigðis- og öldrunarstofnanir. Þannig verði almennt aðhald 2% utan þeirra liða sem vaninn er að undanskilja en 0,5% á framhalds- og háskóla. Engin aðhaldskrafa er sett á bótakerfi almannatrygginga og atvinnuleysis, sjúkratryggingar og dómstóla, að viðbættum heilbrigðis- og öldrunarstofnunum. 
  • Hluta af nýju útgjaldasvigrúmi sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi fjármálaáætlun verði frestað. Almennt útgjaldasvigrúm málefnasviða árið 2023 verði 2,1 ma.kr. í stað áforma um 4,1 ma.kr. Áformað svigrúm verði síðan fært aftur inn í ramma málefnasviða næstu tvö árin. 
  • Aðrar breytingar á útgjaldahlið málefnasviða eru m.a. frestun á nokkrum útgjaldamálum til ársins 2024, lækkun á framlögum til stjórnmálasamtaka, hliðrun á helmingi sérstaks 1 ma.kr. viðbótarframlags til menningarmála vegna 2023 til ársins 2024 og aukin útgjöld sem tengjast auknum tekjum, m.a. af varaflugvöllum og sjókvíeldi. 
  • Loks eru fjárfestingaráform endurskoðuð, einkum til þess að endurspegla betur mat á þörf fyrir viðbótar fjárveitingar á næsta ári. Að undanförnu hafa tiltekin fjárfestingarverkefni dregist frá því sem áætlanir gáfu til kynna m.a. þar sem framkvæmdageta hefur reynst minni. Þá er gert ráð fyrir að hliðra verkáföngum aftur um eitt ár í einhverjum tilfellum þar sem færi gefst á að afla hagstæðari tilboða síðar í ljósi stöðunnar á byggingamarkaði.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum