Hoppa yfir valmynd
10. júní 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Kynnti sér áhugaverð verkefni í Frakklandi

Stefania Giannini, aðstoðarframkvæmdastjóri UNESCO, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.  - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, kynnti sér ýmis áhugaverð verkefni á málefnasviðum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins í Frakklandi í vikunni í framhaldi af  ráðherrafundi OECD ríkjanna um vinnumarkaðsmál í París. Ráðherra fundaði með fulltrúum úr atvinnumálaráðuneyti Frakklands og þverlægri ráðuneytanefnd um málefni fatlaðs fólks þar sem hann ræddi fjölbreytt málefni fatlaðs fólks tengd vinnumarkaði, menntun og þá stefnumótun sem átt hefur sér stað í Frakklandi til að tryggja inngildinu fatlaðs fólks í menntakerfinu og á vinnumarkaði.

Í framhaldinu fundaði ráðherra með Stefania Giannini, aðstoðarframkvæmdastjóra UNESCO, um fullorðinsfræðslu og stefnumótun í tækni-, starfs- og endurmenntun (TVET). Hér var um að ræða fyrstu ráðherraheimsókn frá Íslandi í höfuðstöðvar UNESCO frá því að Ísland tók sæti í framkvæmdastjórn UNESCO. Einnig átti ráðherra hádegisverðarfund með fulltrúum Employment, Labour and Social Affair Directorate (ELS) hjá OECD þar sem meðal annars var rætt um málefni vinnumarkaðarins og réttlát umskipti, auk málefna innflytjenda og jafnréttis.

Guðmundur Ingi heimsótti Club House Paris en það er staður þar sem fólk með geðrænar áskoranir getur sótt á eigin forsendum og fengið stuðning til að finna vinnu og við að fóta sig aftur á vinnumarkaði. Þá heimsótti ráðherra útvarpsstöðina Vivre FM þar sem helmingur starfsfólks er fatlað fólk og fékk kynningu á starfsemi stöðvarinnar.

Ráðherra lauk deginum á fundi með Christophe Léonzi, sendiherra fólksflutninga í utanríkisráðuneyti Frakklands þar sem þeir ræddu meðal annars móttöku flóttafólks frá Úkraínu, og áskoranir hvað varðar atvinnu-, mennta- og húsnæðismál auk félagslegra réttinda. Fræddi sendiherrann ráðherra um fyrirkomulag móttöku flóttafólks í Frakklandi og hvernig unnið hefur verið að því að tryggja sem best öryggi flóttafólks.

  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og Christophe Léonzi, sendiherra fólksflutninga í utanríkisráðuneyti Frakklands.  - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum