Hoppa yfir valmynd
10. júní 2022 Forsætisráðuneytið

Þrír óháðir sérfræðingar gera úttekt í samræmi við ákvæði laga um Seðlabankann ​

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur valið þrjá óháða sérfræðinga til að gera úttekt um hvernig Seðlabankanum hefur tekist að uppfylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fjármálaeftirlits. Umrædd úttekt er í samræmi við ákvæði laga um Seðlabankann og skal framkvæma þá fyrstu fyrir lok árs 2022. Mun slíkt ytra mat fara fram á fimm ára fresti en slíkar faglegar úttektir tíðkast hjá seðlabönkum annars staðar.

Í úttekt sérfræðinganna verður einnig litið til annarra þátta í starfsemi bankans, svo sem skipulags, verkaskiptingar og valdsviðs. Í lögunum er tilgreint að einn sérfræðinganna skuli hafa haldgóða þekkingu á íslensku efnahagslífi en hinir tveir skulu hafa víðtæka þekkingu og reynslu af alþjóðlegri fjármálastarfsemi og rekstri seðlabanka utan Íslands.

Í samræmi við ofangreint hefur forsætisráðherra valið þrjá sérfræðinga sem allir hafa viðamikla þekkingu og reynslu á þeim sviðum sem nefnd eru í lagaákvæðinu:

  • Joanne Kellerman. Hún var um árabil framkvæmdastjóri fjármálaeftirlits hjá hollenska seðlabankanum og sat í stjórn bankans. Einnig hefur hún gegnt stöðu framkvæmdastjóra á sviði skilaáætlana og ákvarðana fyrir sameiginlega skilastjórn ESB og setið í stjórn eftirlitsnefndar hins sameiginlega fjármálaeftirlits Evrópska seðlabankans.
  • Patrick Honohan. Hann var um skeið seðlabankastjóri Írlands og sat í stjórn Evrópska seðlabankans. Patrick hefur töluverða þekkingu á íslenskum þjóðabúskap en hann vann að skýrslu um umgjörð peningamála á Íslandi sem kom út 2018. Þá skrifaði hann kafla um beitingu fjárstreymistækja á Íslandi í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
  • Pentti Hakkarainen. Hann var um árabil varaseðlabankastjóri Finnlands og formaður stjórnar finnska fjármálaeftirlitsins. Eftir að hann lét af því embætti tók hann sæti í stjórn fjármálaeftirlits Evrópska seðlabankans.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira