Hoppa yfir valmynd
10. júní 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Tilraunaverkefni sem miðar að öruggari lyfjameðferð sjúklinga

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að veita Reykjanesapóteki þriggja milljóna króna styrk til að ráðast í tilraunaverkefni sem miðar að því að auka öryggi lyfjameðferðar og bæta meðferðarheldni sjúklinga. Verkefnið verður afmarkað við þá sem taka lyf við hjarta- og æðasjúkdómum á borð við blóðþynningarlyf, blóðþrýstings- og blóðfitulækkandi lyf og felst í skilgreindri umsjón lyfjafræðings sem veitir viðkomandi sjúklingi ráðgjöf og eftirfylgni á fyrstu vikum meðferðar.

Þjónusta sem þessi er þekkt erlendis undir heitinu „new medicine service“ sem hefur verið þýtt á íslensku sem „lyfjastoð“. Markmiðið er að draga úr rangri lyfjanotkun, tryggja öruggari innleiðingu meðferðar hjá sjúklingum, bæta lyfjaöryggi hjá þeim sem nota mörg lyf og auka öryggi lyfjanotkunar þegar um áhættusöm lyf er að ræða, t.d. blóðþynningarlyf.

Rannsóknir benda til að mest þörf á leiðsögn og upplýsingagjöf sé á fyrstu vikum lyfjameðferðar, á fyrstu dögunum til að stuðla að meðferðarheldni og um mánuði eftir að meðferð hófst til að veita sjúklingi upplýsingar ef fram hafa komið einhver vandamál tengd lyfjagjöfinni sem þarf að ræða. Tilraunaverkefni Reykjanessapóteks miðast við að bjóða sjúklingum sem eru að hefja lyfjameðferð þátttöku í verkefninu. Viðkomandi verður boðið viðtal við lyfjafræðing apóteksins einni til tveimur vikum eftir meðferð og svo annað viðtal þremur til fimm vikum síðar. Samstarf verður við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem á þess kost að vísa sjúklingum á þessa þjónustu.

Heilsufarslegur og fjárhagslegur ávinningur

Tilraunaverkefni Reykjanessapóteks er að norskri fyrirmynd. Í Noregi er áætlað að röng lyfjanotkun valdi árlega kostnaði sem nemur um 74 milljörðum króna. Ef þessi nálgun er yfirfærð á Ísland nemur sambærilegur kostnaður um 5 milljörðum króna árlega. Fjárhagslegur ávinningur af réttri og öruggri lyfjanotkun sjúklinga er því mikill og enn frekar skiptir miklu máli heilsufarslegur ávinningur einstaklinga og samfélagsins en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að um 15% sjúkrahússinnlagna ár hvert sé vegna lyfjatengdra atvika.

Auk þriggja milljóna króna styrks heilbrigðisráðuneytisins til verkefnisins mun ráðuneytið óska eftir því að Embætti landlæknis tryggi aðgengi apóteksins að lyfjagagnagrunni embættisins á verkefnatímanum og kanni jafnframt möguleika á miðlægri skráningu upplýsinga. Vonir eru bundnar við að verkefnið geti orðið fyrirmynd að aukinni lyfjafræðilegri þjónustu í apótekum í samræmi við markmið lyfjastefnu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum