Hoppa yfir valmynd
15. júní 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Aukin tækifæri fylgja fjölbreytileika í nýsköpun

Jafnræði í íslenskri nýsköpun með sérstakri áherslu á að auka hlut kvenna var yfirskrift vorfundar Tækniþróunarsjóðs sem fram fór í dag. Hlutverk Tækniþróunarsjóðs er að styðja við rannsóknir og þróunarstarf sem miðar að nýsköpun í íslensku atvinnulífi og er hann opinn öllum atvinnugreinum. Sjóðurinn er samkeppnissjóður sem býður upp á fjölmarga styrktarflokka fyrir ólík verkefni sem geta verið á mismunandi stað í vaxtaferli fyrirtækja.

Leiðrétting kynjahalla forsenda árangurs

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, flutti ávarp á fundinum í dag og lagði þar áherslu á mikilvægi þess að allir, óháð kyni, taki þátt og fái tækifæri í nýsköpunarumhverfinu á Íslandi svo hugvitið endurspegli tækifæri íslensks samfélags þegar kemur að rannsóknum, þróun og nýsköpun.

Stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi er orðið víðfemt en misjafnt er hvernig kynin nýta sér þetta stuðningsnet. Sem dæmi um þetta nefndi ráðherra að árið 2021 var metár í sögu Tækniþróunarsjóðs, bæði hvað varðar heildarupphæð veittra styrkja og fjölda úthlutana. Eins og í öðrum öngum samfélagsins má þó sjá ójafnt hlutfall kynjanna í umsóknum og úthlutunum styrkja frá rannsókna- og þróunarsjóðum. Slíkur kynjahalli leynist víða í samfélaginu og virkar í allar áttir. Í háskólunum hallar á karlkyns nemendur á sviði menntavísinda og heilbrigðisgreina á meðan það vantar kvenkyns nemendur í raunvísindi. Slík misskipting endurspeglast ekki aðeins í úthlutunum styrkja úr sjóðum heldur einnig, og jafnvel enn betur, í atvinnulífinu seinna meir.

,,Í þeim mikilvægu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í dag, hvort sem það er á sviði umhverfismála, heilbrigðismála eða í öðrum krefjandi og flóknum verkefnum er hugvitið og nýsköpun í lykilhlutverki,“ sagði ráðherra í ræðu sinni. ,,Til þess að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar er mikilvægt að allir taki þátt og hafi til þess jöfn tækifæri.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira