Hoppa yfir valmynd
15. júní 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Mótun stefnu um málefni hönnunar og arkitektúrs: Aðgerðir sem skilar árangri, fagmennsku og gæðum

„Markmið verkefnisins er skýrt; við viljum móta stefnu og aðgerðir sem skila árangri, fagmennsku og gæðum til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.  Nýrri stefnu er ætlað að virkja mannauð í hönnunargreinum til þess að leysa brýn verkefni samtímans, auka lífsgæði og stuðla að sjálfbærri verðmætasköpun,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í ávarpi sínu á nýlegum rýnifundi um mótun stefnu í málefnum hönnunar og arkitektúrs.


Þátttakendum, sem komu víða að m.a. úr hönnunarsamfélaginu, atvinnulífinu og menntakerfinu, var falið að ræða áherslur, aðgerðir og forgangsröðun verkefna út frá fyrirliggjandi gögnum, þar á meðal eldri hönnunarstefnu og niðurstöðum stefnumóts Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs frá því í júní á síðasta ári. Nú er unnið úr niðurstöðum og umræðum fundarins en stefnudrög fara síðan í opið samráð í Samráðsgátt stjórnvalda.
 

„Við höfum allt að vinna að efla íslenska hönnun og arkitektúr, sem fag- og atvinnugreinar, útflutningsgreinar og mikilvæga aðferðafræði – allt eru þetta leiðir að lífgæðum fyrir samfélagið. Slagkrafturinn kemur með sameiginlegri forgangsröðun og sýn, mikilvægasta límið er okkar sameiginlegu markmið – fyrir atvinnulíf, stjórnvöld, skólakerfi og stofnanir,“ sagði ráðherra sem sett hefur málefni hönnunar og arkitektúrs í öndvegi á þessu kjörtímabili. Sérstök áhersla er lögð á skapandi greinar í ríkisstjórnarsáttmálanum en þar kemur meðal annars fram að: „Aukin þekking og skapandi lausnir á brýnum áskorunum munu einnig leysa úr læðingi mikil tækifæri í verðmætasköpun sem verða grunnur að velsældarsamfélagi framtíðarinnar.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira