Hoppa yfir valmynd
15. júní 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Þróunarsjóður eflir tengsl milli háskóla, samfélags og atvinnulífs

Eitt af einkennum íslensks samfélags er gott aðgengi að námi. Menntunarstig þjóðarinnar er hátt og fjárfesting samfélagsins í menntun er fjárfesting í framtíðinni, enda mikil fylgni milli menntunar og aukinna lífsgæða. Fyrir einstaklinga er menntun lykill að auknum lífsgæðum og fyrir samfélag er hátt menntunarstig lykill að aukinni velsæld.

Svona hóf Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ræðu sína á ársfundi Háskóla Íslands sem fram fór í dag þar sem ráðherra ítrekaði mikilvægi háskóla í fremstu röð fyrir íslenskt samfélag. Háskólar á Íslandi eiga nú í fyrsta sinn sitt eigið ráðuneyti hvers hlutverk er að skapa betri tengingu milli háskóla, vísinda, nýsköpunar og atvinnulífs.

Á fundinum í morgun fagnaði ráðherra góðum árangri HÍ og benti á tækifærin sem felast í þverfræðileikanum innan veggja skólans og öflugu rannsóknarstarfi sem þar fer fram. „Við sem þjóð eigum að efla vísindi og rannsóknir sem eru hryggjarstykki þekkingarsköpunar. Það er mikilvægt að afrakstur í vísinda- og rannsóknarstarfi skili sér í auknum mæli inn í samfélagið beint eða óbeint,“ sagði ráðherra. „Grunnvísindi eru mikilvæg en við eigum ekki síður að leggja áherslu á að úr vísindum verði til verðmæti. Og verðmæti verða ekki verðmæti nema einhver noti það sem þú skapar, býrð til eða rannsakar.“

Aukinn árangur með Þróunarsjóði íslenskra háskóla

Meðal aðgerða sem fram fara þessi misserin í þeim tilgangi að auka árangur rannsókna og þróunar er stofnun sérstaks Þróunarsjóðs íslenskra háskóla. Sjóðurinn hefur það að markmiði að nýta tækifæri sem felast í margvíslegum þróunarkostum innan háskólanna. Auk þess er honum ætlað að efla tengsl háskóla, atvinnulífs og samfélagsins. „Sjaldan hefur verið mikilvægara að yfirfæra rannsóknir, þekkingu og nýsköpun til samfélagsins en nú í umróti hraðra tæknibreytinga á öllum sviðum samfélagsins og stórra áskorana, t.d. í loftslagsmálum,“ sagði Áslaug Arna í morgun og bætti við að stofnun Þróunarsjóðs sé mikilvægur áfangi í átaki um nýsköpun og framfarir.

Átak til að fjölga nemendum í STEAM greinum

Í ræðu sinni beindi ráðherra einnig athyglinni að þeirri gríðarlegu þörf á sérfræðingum sem íslenskt samfélag glímir við en áætlað er að u.þ.b. 9000 sérfræðinga vanti á næstu árum ef vaxtaáætlanir í hugverkaiðnaði hér á landi eiga að ganga eftir. Í þessu felst að aukið framboð af fólki menntuðu í STEAM greinum (vísindi, tækni, verkfræði, skapandi greinar og stærðfræði) er nauðsynlegt.

Ráðherra benti á að til lengri tíma litið sé þörf á átaki til að fjölga STEAM nemendum á Íslandi, enda verði vandinn sem er skortur á sérfræðingum ekki leystur með því aðeins að fá erlenda sérfræðinga hingað til lands, þrátt fyrir að það sé stór liður í átt að lausn vandans. Til að fara í slíkt átak þarf samhent átak stjórnvalda, atvinnulífs og menntastofnana og þar gegnir stofnun líkt og HÍ grundvallarhlutverki, enda leiðandi afl þegar kemur að kennslu og rannsóknum í þessum greinum, að listgreinum undanskildum.

Ísland verði eftirsóknarvert fyrir erlenda nemendur

Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsumbreytinga sem nú eiga sér stað. Með auknu samstarfi rannsókna- og þekkingarsetra við háskóla landsins má nýta mannauð og aðstöðu betur og þannig auka aðgengi nemenda og fræðimanna að auðlindum menningar og náttúru landsins. Í þessu samhengi nefndi ráðherra sérstaklega þá jákvæðu þróun sem hefur átt sér stað með uppbyggingu klasa, þekkingarsetra og FAB-laba um landið allt en á þeim stöðum fer fram mikilvæg miðlun þekkingar, tækni og nýsköpunar.

Háskólar starfa í dag í breyttu samkeppnisumhverfi þar sem háskólamenntun er í grunnin starfsemi á alþjóðlegum markaði. 1.670 erlendir nemendur stunda nú nám við HÍ og er það um 10% af heildarfjölda nemenda við skólann. Flestir koma þessir nemendur frá Bandaríkjunum. Til að ná markmiðum um vöxt hugverkaiðnaðar á Íslandi og auka samkeppnishæfni íslenskra háskóla er ljóst að laða þarf að fleiri erlenda námsmenn. „Við þurfum að gera Ísland eftirsóknarvert, ekki bara þannig að námsmenn velji Ísland til að mennta sig á háskólastigi heldur einnig að þeir velji að vera hér áfram og taka þátt í íslensku samfélagi eftir að þeir útskrifast,“ sagði ráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum