Hoppa yfir valmynd
15. júní 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Afríkuríkja funduðu í Helsinki

Utanríkisráðherrar Norðurlanda og Afríkuríkja - myndAtte Kajova/Ministry for Foreign Affairs of Finland

Tuttugasti fundur utanríkisráðherra Afríkuríkja og Norðurlanda fór fram í Helsinki í gær. Friðar- og öryggismál, þar á meðal áhrif stríðsins í Úkraínu, sjálfbær samfélög, baráttan við loftslagsbreytingar og aukið samstarf Norðurlanda og Afríkuríkja í alþjóðakerfinu voru meðal helstu umræðuefna ráðherranna. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti fundinn.

„Þetta er mikilvægt tækifæri til að efla samskipti Norðurlanda og Afríkuríkja. Með hnattvæðingunni fylgja sameiginlegar áskoranir sem öll ríki þurfa að vinna saman að því að leysa. Afríka glímir við margar erfiðar áskoranir en þar eru einnig mikil tækifæri eins og við heyrðum frá fulltrúum ungs fólks frá Afríku. Unga fólkið þarf að vera hluti af samtalinu og við þurfum að skapa þeim aukin tækifæri,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Um er að ræða árlega fundi sem haldnir eru til skiptis á Norðurlöndum og í Afríkuríkjum. Fyrsti slíki fundurinn fór fram árið 2000 að undirlagi þáverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar. Upphaflega sóttu tíu líkt þenkjandi Afríkuríki fundinn en á síðari árum hefur hann vaxið að umfangi og var alls 25 Afríkuríkjum boðið til fundarins að þessu sinni.

Tilgangur fundanna er að styrkja tengsl og varpa ljósi á víðtækt samstarf Afríkuríkja og Norðurlandanna, umfram þróunarsamstarf. Undanfarin ár hefur áhersla verið lögð á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og framtíðarsýn Afríkusambandsins sem nefnist Markmið 2063 (e. Agenda 2063).

Samhliða fundinum átti utanríkisráðherra einnig tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Alsír og Rúanda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira