Hoppa yfir valmynd
16. júní 2022 Forsætisráðuneytið

Fimm þingmál forsætisráðherra afgreidd fyrir þinglok

Tvö frumvörp forsætisráðherra, annars vegar um fjölgun mismununarþátta í lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og hins vegar um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna, voru samþykkt á Alþingi í gær. Þrjú þingmál ráðherra til viðbótar voru afgreidd áður en fundum Alþingis var frestað aðfararnótt fimmtudags.

Með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna er mismununarþáttum sem lögin ná til fjölgað. Þannig gilda lögin ekki eingöngu um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, heldur einnig óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar. Þá breytist heiti laganna í lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar. Sérstök lög gilda um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Í frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna er kveðið á um forkaupsrétt ríkisins að landi þar sem eru friðlýstar menningarminjar. Þegar er að finna í lögum sambærileg ákvæði er varða jarðir og landareignir sem eru að hluta til eða öllu leyti á náttúruminjaskrá. Þá eru með samþykkt frumvarpsins sett ítarlegri ákvæði um sameign á landi auk fleiri breytinga sem snúa að eignarráði, ráðstöfun og nýtingu fasteigna, með áherslu á land og landgæði.

Fyrr í vikunni voru samþykktar tvær þingsályktunartillögur forsætisráðherra. Annars vegar um fyrstu aðgerðaáætlunina í málefnum hinsegin fólks og hins vegar um gerð minnisvarða um eldgosið á Heimaey í tilefni þess að á næsta ári verða liðin 50 ár frá gosinu.

Þá var frumvarp um heimild Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofa samþykkt á Alþingi í síðustu viku. Er um að ræða nauðsynlegar lagabreytingar til að umrædd rannsókn geti farið fram.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum