Hoppa yfir valmynd
16. júní 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Sumardvalir barna og ungmenna með ADHD, einhverfu og aðrar skyldar raskanir

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra og Vilmundur Gíslason, framkvæmdarstjóri félagsins. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur undirritað samning við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra um sumardvöl barna og ungmenna með ADHD, einhverfu og aðrar skyldar raskanir í Háholti í Skagafirði nú í sumar og sumarið 2023.

Undanfarin tvö sumur hefur Reykjadalur fengið styrki frá íslenskum stjórnvöldum til þess að bjóða upp á sumardvöl í Háholti fyrir þennan hóp sem hluta viðspyrnuaðgerða vegna COVID-19. Markmið styrksins var að fjölga valkostum um afþreyingu fyrir þennan hóp, bjóða upp á tilbreytingu yfir sumartímann og rjúfa félagslega einangrun þeirra ásamt því að létta álagi af fjölskyldum barna.  Mikil ánægja hefur verið með dvölina. 

Mennta- og barnamálaráðuneytið mun á árunum 2022 og 2023 leggja Styrktarfélaginu til 106 m.kr. til að bjóða börnum á aldrinum 8-18 ára með ADHD, einhverfu og skyldar raskanir upp á sumardvöl í Háholti í Skagafirði.  Styrktarfélagið mun taka á móti 10-14 börnum í einu í 1-2 vikur í senn er gert ráð fyrir að allt að 120 börn og ungmenni geti nýtt sér dvölina nú í sumar og næsta sumar.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra:

Covid-19 faraldurinn hafði mikil áhrif á börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra. Með því að styrkja hið frábæra starf Styrktarfélagsins viljum við bregðast við því og gera fleiri börnum gert kleift að eiga skemmtilegar stundir í sumar og fjölga valkostum þeirra til frístunda.

Vilmundur Gíslason, framkvæmdarstjóri styrktarfélagsins: 

Við erum gríðarlega þakklát fyrir að ráðherra treysti okkur enn einu sinni fyrir þessu þarfa verkefni. Það er mikil eftirspurn eftir frístundavalkostum fyrir þennan hóp. Síðastliðin tvö sumur hafa verið alveg frábær í Háholti enda hefur svæðið upp á margt að bjóða til þess að gera dvölina ævintýralega. Það var því mikil gleði bæði meðal foreldra og barna þegar ljóst var að ævintýrabúðirnar í Háholti verði áfram næstu tvö sumur.  Samstarfið við ráðuneytið hefur frá upphafi verið frábært og lausnamiðað. Við fengum mikið frelsi til þess að koma með hugmyndir og styrkurinn gerir okkur kleift að bjóða enn stærri hóp upp á sumardvöl hjá Reykjadal.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira