Hoppa yfir valmynd
16. júní 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Þingsályktun um 3. áfanga rammaáætlunar samþykkt á Alþingi

Urriðafoss - myndHugi Ólafsson

Alþingi samþykkti í gær þingsályktun um 3. áfanga rammaáætlunar, áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Þá samþykkti Alþingi einnig breytingar á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun, þess efnis að stækkanir á virkjunum sem þegar eru í rekstri verði undanþegnar málsmeðferð rammaáætlunar nema, eins og það er orðað í lögunum, „stækkunin feli í sér að svæði sem ekki hefur verið raskað af viðkomandi virkjun verði raskað“.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, mælti fyrir þingsályktunartillögunni í febrúar. Var hún þá lögð fram óbreytt frá 151., 146. og 145. löggjafarþingi, fyrir utan að þau svæði sem síðan þá hafa verið friðlýst á grundvelli gildandi áætlunar voru felld út úr tillögunni.

Þingsályktunartillagan var samþykkt í gær með breytingum meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar. Kjalölduveita og fjórir virkjanakostir í Héraðsvötnum í Skagafirði voru færð úr verndarflokki í biðflokk, en Skrokkalda og Holta- og Urriða­foss­virkj­anir í neðri hluta Þjórsár fluttust úr nýt­ing­ar­flokki í bið­flokk. Búrfellslundur, í þeirri útfærslu sem var lögð fram í 4. áfanga rammaáætlunar, var auk þess fluttur úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Auk þessa hafa verið felldir út úr tillögunni 28 virkjunarkostir sem lagðir voru fram af Orkustofnun á sínum tíma og sem engir virkjunaraðilar stóðu á bak við.

Samþykkt þingsályktunarinnar hefur í för með sér að  biðflokkur áætlunarinnar stækkar nokkuð frá því sem áður var, líkt og að var stefnt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ákvörðunartöku um þá virkjunarkosti er þar með frestað uns þeir hafa fengið nýja og/eða ítarlegri umfjöllun faghópa og verkefnisstjórnar. Lagaleg staða þeirra virkjunarkosta sem komu nýir inn í rammaáætlun í 3. áfanga, þ.e. sem ekki er að finna í þeirri þingsályktun sem Alþingi afgreiddi 2013 og 2015, skýrist og hægt er að hefja vinnu við friðlýsingar (þar sem slíkt á við) eða áframhaldandi skipulagsferli í tilfelli þeirra virkjunarkosta sem flokkaðir eru í orkunýtingarflokk.

„Rammaáætlun er mikilvægt stjórntæki sem leggur stóru línurnar fyrir áform stjórnvalda um vernd og nýtingu virkjunarkosta. Það er því mikið ánægjuefni að 3. áfangi rammaáætlunar hefur loks hlotið afgreiðslu þingsins. Það er ekki síður ánægjuefni að þingheimur hafi samþykkt að stækkanir á virkjunum sem þegar eru í rekstri verði undanþegnar málsmeðferð rammaáætlunar. Með því að undanskilja stækkanir á virkjunum sem eingöngu hafa áhrif á það landsvæði sem búið er að taka ákvörðun um að heimila nýtingu á má hraða framkvæmdum til að auka afkastagetu virkjana sem þegar eru í rekstri. Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og afgreiðsla rammaáætlunar er mikilvægur liður í að þau markmið náist,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Ályktun um vernd og orkunýtingu landsvæða

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum