Hoppa yfir valmynd
17. júní 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Áframhaldandi stuðningur stjórnvalda við nýsköpun

Alþingi hefur samþykkt áframhaldandi stuðning við nýsköpun í formi 35% endurgreiðslu skatta til rannsókna- og þróunarverkefna. Endurgreiðsluhlutfall rannsókna- og þróunarkostnaðar var upprunalega hækkað úr 20% í 35% fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í tengslum við aðgerðir stjórnvalda gegn heimsfaraldri árið 2020. Þessi hækkun var aðeins tímabundin og gekk því til baka um síðustu áramót. Á móti kveður stjórnarsáttmáli á um að hækkunin verði gerð varanleg og nú liggur fyrir framlenging út þetta ár.

Markmið skattfrádráttar vegna rannsókna- og þróunarverkefna er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja með því að veita þeim rétt til skattfrádráttar og/eða endurgreiðslu vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni. Sífellt fleiri fyrirtæki hafi nýtt sér þennan stuðning og framlög til málaflokksins hafa aukist til muna. Ljóst er að þessi stuðningur hefur spilað lykilhlutverk í öflugum vexti nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og aukinni samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði.

Jákvæð áhrif skattahvata á nýsköpun á Íslandi

Útflutningstekjur íslensks hugverkaiðnaðar hafa tvöfaldast frá árinu 2018 auk þess sem æ fleiri fyrirtæki fjölga stöðugildum hér á landi frekar en í öðrum löndum. Þessa jákvæðu þróun má að mörgu leyti rekja til stuðnings stjórnvalda við nýsköpun með hvötum á borð við skattaívilnun og endurgreiðslu. Gróska í nýsköpun varð einnig áberandi í heimsfaraldri þar sem slíkir hvatar urðu til þess að íslensk fyrirtæki á sviði rannsókna og þróunar blésu til sóknar fremur en að draga saman seglin. Þá hafa erlend fyrirtæki leitað í auknum mæli til Íslands vegna þess frjóa nýsköpunarumhverfis sem hér þrífst.

Rannsóknir og þróun eru arðbærustu hlekkir framleiðslukeðjunnar og liggja þar mikil verðmæti, enda er hugvitið ótakmörkuð auðlind sem veitir öflugan stuðning og verðmætaukningu fyrir aðra geira. Þá hafa rannsóknir og þróun jafnframt margföldunaráhrif þegar kemur að verðmætasköpun innan hagkerfa vegna margnýtanlegrar þekkingarmyndunar.

„Stuðningur við rannsóknir og þróun fyrirtækja er fjárfesting í mannauði, nýsköpun og þekkingu,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem fagnar ákvörðun um varanlega hækkun endurgreiðsluhlutfalls. „Allt eru þetta lykilþættir til að bæta lífsgæði og auka hagvöxt í landinu.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum