Hoppa yfir valmynd
17. júní 2022 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra flutti þjóðhátíðarávarp á Austurvelli

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti þjóðhátíðarávarp á Austurvelli í dag á 78 ára afmæli lýðveldisins. Hún sagði lýðveldið bera aldurinn vel líkt og margir Íslendingar á sama aldri.

Forsætisráðherra ræddi einnig hrikalegar afleiðingar innrásar Rússlands í Úkraínu og ítrekaði afdráttarlausan stuðning íslenskra stjórnvalda við Úkraínu. Í þessu ölduróti sé utanríkisstefna Íslands skýr.

„Ísland er og verður herlaus þjóð sem byggir fullveldi sitt á virðingu fyrir alþjóðalögum og virku samstarfi við önnur ríki á vettvangi alþjóðastofnana. Sem traustur og áreiðanlegur þátttakandi í alþjóðakerfinu er Ísland öðru fremur málsvari mannréttinda, lýðræðis og réttarríkis. Og hér eftir sem hingað til notum við rödd okkar til að tala fyrir réttindum kvenna og stúlkna, fyrir umhverfis- og loftslagsmálum, og fyrir friði og afvopnun.“

Þá ræddi forsætisráðherra hið dýrmæta jafnvægi milli verndar og nýtingar orkuauðlinda og mikilvægi þess að marka stefnu utan um nýtingu vindorku og hvernig arðurinn af þeirri auðlind renni til samfélagsins. Í ávarpinu fjallaði forsætisráðherra einnig um stöðu heimilanna, hugverkageirann, loftslagsvána, skólamál og lýðræði.

„Lýðræðið hefur átt undir högg að sækja og við verðum stöðugt að halda vöku okkar – lýðræðið getur horfið á einni svipstundu – jafnvel þótt það hafi lengi verið við lýði. Í dag er lýðveldið Ísland 78 ára. Látum lýðræðið verða okkar leiðarljós á þessum þjóðhátíðardegi og öllum þeim dögum sem á eftir honum koma. Lýðræðið á að vera sú saga, það ljóð, sem við kjósum okkur til handa alla tíð.“

Hátíðarávarp forsætisráðherra 17. júní 2022

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira