Hoppa yfir valmynd
20. júní 2022 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Ísland veitir sérstakt fjárframlag til Evrópuráðsins í tilefni af formennsku Íslands

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Marija Pejčinović Burić, aðalframkvæmdastjóri Evrópuráðsins  - mynd

Í tilefni af formennsku Íslands í Evrópuráðinu í nóvember nk. hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að veita sérstakt fjárframlag til Evrópuráðsins sem tengist formennskuáherslum Íslands. Er þar um að ræða framlag til jafnréttismála á vettvangi Evrópuráðsins, framlag til málefna barna og verkefnis sem varðar hið íslenska Barnahús módel í Evrópu og til Mannréttindadómstóls Evrópu til þess að auka skilvirkni dómstólsins. Framlagið í heild nemur 300 þúsund evrum eða um 43 milljónum íslenskra króna. 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tilkynnti um framlagið á fundi með Marija Pejčinović Burić, aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins í morgun. „Formennskuáherslur Íslands eru í góðu samræmi við áherslur íslenskra stjórnvalda m.a. á sviði jafnréttismála og í þágu málefna barna. Við teljum að Ísland hafi margt fram að færa á þessum málefnasviðum og ég tel afar mikilvægt að við leggjum okkar af mörkum í alþjóðlegu samstarfi með því að styrkja verkefni sem geta nýst öðrum aðildarríkjum Evrópuráðsins.“ 

Formennska Íslands sem hefst í nóvember á þessu ári og stendur til maí mánaðar 2023. Ísland hefur þegar tekið við formennsku á mannréttindafundalotum Evrópuráðsins. 46 ríki með um 800 milljónir íbúa eiga aðild að Evrópuráðinu

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum