Hoppa yfir valmynd
20. júní 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030

Gildi sem fram komu meðal þátttakenda á geðheilbrigðisþingi árið 2020 - myndHeilbrigðisráðuneytið

Þingsályktun heilbrigðisráðherra um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi þann 15. júní með öllum greiddum atkvæðum. Stefnan tekur mið af ályktunum Alþingis um heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu og er í henni lögð áhersla á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu og stuðning við heilsueflingu á öllum æviskeiðum. Til að hrinda stefnunni í framkvæmd verða gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu hagsmunaaðila.

Helstu straumar og stefnur í geðheilbrigðismálum á heimsvísu sýna að það eru sameiginlegir hagsmunir þjóða að auka áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu. Eins og fram kemur í greinargerð með þingsályktuninni hafa töluverðar framfarir orðið í geðheilbrigðismálum hér á landi á undanförnum árum. Engu að síður er margt sem þarf að bæta til að tryggja heildstæða og samhæfða nálgun í geðheilbrigðismálum, samþættingu þjónustu milli kerfa og þjónustustiga o.fl. Við gerð þingsályktunartillögunnar var m.a. byggt á niðurstöðum geðheilbrigðisþings sem haldið var árið 2020, ásamt þverfaglegum alþjóðlegum sem íslenskum greiningum og skýrslum á þessu sviði þar sem bent er á ýmsar leiðir til úrbóta. Markmið nýrrar stefnu í geðheilbrigðismálum er að ryðja markvisst úr vegi þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir framförum í málaflokknum og styðja við umbætur. 

Efni þingsályktunarinnar skiptist í fjóra áhersluþætti og er ýtarlega fjallað um hvern og einn þeirra í greinargerð.

Fyrsti áhersluþátturinn lýtur að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar sem beinist að grundvallarþáttum vellíðunar og áhrifaþáttum geðheilbrigðis með áherslu á mikilvægi þess að hlúa að geðheilsunni alla ævi.

Annar áhersluþátturinn lýtur að því að heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggist á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu. Geðheilbrigðisþjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi milli hlutaðeigandi þjónustuveitendenda.

Þriðji áhersluþátturinn lýtur að notendasamráði og notendamiðaðri þjónusta á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu. Til að tryggja að geðheilbrigðisþjónusta sé í samræmi við þarfir og væntingar notenda er nauðsynlegt að virkt samtal eigi sér stað milli notenda, þjónustuveitenda og stjórnvalda. Slíkt samtal þarf að leiða til þess að geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi verði í vaxandi mæli notendamiðuð og áhersla sé þar með lögð á valdeflingu notenda.

Fjórði áhersluþátturinn lýtur að nýsköpun, vísindum og þróun og bættu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

Eins og fram kemur í þingsályktuninni verða gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu hagsmunaaðila til að hrinda stefnunni í framkvæmd og verða þær áætlanir uppfærðar árlega.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum