Hoppa yfir valmynd
21. júní 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Auknar vinsældir Endurmenntunar HÍ í samræmi við hraðar breytingar á vinnumarkaði

Áætlað er að í náinni framtíð muni allt að helmingur núverandi starfa í atvinnulífinu breytast umtalsvert eða jafnvel hverfa. Þetta kom fram í hátíðarávarpi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við útskriftarathöfn Endurmenntunar Háskóla Íslands þegar 205 nemendur voru brautskráðir af fimm námsbrautum. Jafnframt kom fram í ávarpi ráðherra að um 65% af nemendum sem eru í grunnskólum nú munu í framtíðinni sinna störfum sem ekki eru til nöfn yfir, einfaldlega þar sem þessi störf eru ekki enn til. Til marks um hraðar breytingar á vinnumarkaði má sjá spár um að rúmlega þriðjungur þeirrar færni sem spurn er eftir nú verður lítil sem engin þörf fyrir eftir aðeins þrjú ár. Þaulreynda spurningin hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór? er því orðin gott sem marklaus í hafsjó möguleika sem bjóðast á vinnumarkaði nútíma og framtíðar.

Aldrei hafa fleiri nemendur útskrifast úr Endurmenntun Háskóla Íslands en gerðu í liðinni viku og í ávarpi sínu beindi ráðherra sjónum sínum að þeim áhrifaríku breytingum sem vinnumarkaður og atvinnulíf standa nú frammi fyrir. Þá fjallaði hún einnig um námsframboð í Endurmenntun í samhengi við þróun náms á framhalds- og háskólastigi, sem og námskeiðahald og símenntun. Slíkt hefur þróast í jákvæða átt og aukist undanfarin ár, hvort sem er til undirbúnings fyrir tiltekin störf, endurmenntunar eða námskeiða fyrir fólk sem þyrstir í aukinn fróðleik eða andlega uppbyggingu.

 

Framsýni og breytingar í menntakerfinu lykilatriði

Í ávarpi sínu fjallaði ráðherra m.a. um þær jákvæðu breytingar í menntamálum sem þegar má sjá endurspeglast í atvinnulífinu. Nefndi hún sem dæmi framhaldsfræðslu sem helguð er fólki sem ekki hefur lokið námi á framhaldsskólastigi. Á tímabili nam hópur þeirra sem ekki hafa lokið slíku námi um 40% af heildarfjölda einstaklinga á vinnumarkaði. Nú er hlutfallið einungis um 20% og má að miklu leyti rekja þá þróun til aukinnar framhaldsfræðslu og raunfærnismats, en slíkt er oft kallað ævinám í daglegu tali. Raunfærnismat felur í sér mat á alhliða þekkingu og færni einstaklinga óháð því hvernig hennar hefur verið aflað. Hingað til hefur slíkt mat aðallega verið nýtt til að meta þekkingu á framhaldsskólastigi en að undanförnu hefur ævinám einnig fikrað sig upp á háskólastig.

Ráðherra fagnaði þessari þróun í ræðu sinni og benti á að „ekki skiptir máli hvernig þekkingar er aflað ef unnt er að leggja mat á hana með trúverðugum aðferðum og veita fólki þannig aðgang að námi sem byggir ofan á sannreynda raunfærni“.

 

Örnám á háskólastigi til skoðunar

Áslaug Arna beindi athyglinni einnig að svokölluðu örnámi (e. microcredentials), en slíkt hefur komið til skoðunar á háskólastigi á Íslandi. Örnám er staðfesting á hæfni sem nemandi hefur aflað sér að loknu stuttu námi og lýtur öllum viðteknum gæðakröfum náms á háskólastigi.

Örnám hefur vaxið hratt í Evrópu á undanförnum árum, ekki síst vegna krafna atvinnulífs og einstaklinga um hæfniþróun og endurmenntun, oftar en ekki í formi styttri námskeiða. Er þetta einnig í takt við kröfur um aukinn sveigjanleika í námi og opnara aðgengi fyrir fólk sem ekki hefur aflað sér menntunar eftir hefðbundnum leiðum. Ráðherra vonast til þess að örnám verði hluti af íslenskum viðmiðum um æðri menntun og prófgráður og opni þ.a.l. háskólum leið til að skipuleggja nám eftir nýjum brautum. Þannig sé aukin fjölbreytni og framboð af færu vinnuafli í hinum ýmsu greinum atvinnulífsins, bæði í störfum sem þekkjast í dag og í störfum sem enn eru ráðgáta framtíðarinnar.

„Það er menntun í landinu almennt til góða að fræðsluaðilar eins og Endurmenntun HÍ hafi svigrúm til þess að þróa nýtt nám og sníða það að þeim þörfum sem eru til staðar,“ sagði ráðherra í tilefni af útskrift úr Endurmenntun um leið og hún lofaði það mikilvæga starf sem þar fer fram. „Með þessu er látið reyna á þanþol menntakerfisins og nýtt land þekkingar brotið til ræktunar. Það er starf frumherjans á akrinum og er sannarlega lofsvert.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum