Hoppa yfir valmynd
21. júní 2022 Innviðaráðuneytið

Opinn fundur HMS um framlög stjórnvalda til uppbyggingar á 3000 leiguíbúðum

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, ávarpaði opinn fund Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um fyrri úthlutun stofnframlaga árið 2022 sem fór fram 20. júní. HMS sér um að úthluta framlögum fyrir hönd ríkisins til uppbyggingar á leiguíbúðum ætluðum fyrir tekju- og eignalága á ári hverju.

„Það er ríkisstjórninni mikið hagsmunamál að stuðla að bættri stöðu á leigumarkaði. Í gegnum stofnframlög hafa nú þegar verið byggðar 1.550 íbúðir og er annað eins í byggingu. Almenna íbúðakerfið hefur sýnt sig sem úrræði þar sem boðið er upp á hagstæða, örugga langtímaleigu sem stuðlar að heilbrigðari leigumarkaði og auknu húsnæðisöryggi.“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Leiguíbúðirnar dreifast víða um land og hefur hlutfall íbúða á landsbyggðinni aldrei verið hærra eða 46%. Af þeim 328 íbúðum sem úthlutun ársins nær til stendur til að byggja 279 nýjar íbúðir en kaupa 49 nýjar og eldri íbúðir. Íbúðirnar verða allar að standast kröfur um hagkvæmni, en með því eru stjórnvöld að skapa hvata fyrir aukið framboð slíkra íbúða. Þetta er mikilvæg innspýting í framboð á leigumarkaði en á þessu ári hafa 550 íbúðir verið teknar í notkun, það er 40% af öllum nýjum íbúðum sem komið hafa á markað á árinu.

Frá árinu 2016 hafa ríki og sveitarfélög úthlutað ríflega 30 milljörðum til uppbyggingar á yfir 3.000 hagkvæmum leiguíbúðum víðsvegar um landið. Í fyrri úthlutun ársins 2022 hefur HMS úthlutað 2,6 milljörðum til uppbyggingar á 328 íbúðum en því til viðbótar bætist við framlag frá sveitarfélögum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum