Hoppa yfir valmynd
22. júní 2022 Forsætisráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ríkisstjórnin styrkir flutning Maríu Júlíu

María Júlía BA 36. Mynd/Byggðasafn Vestfjarða - mynd

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu forsætisráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um að veita 15 m.kr. af ráðstöfunarfé til að styrkja flutning skipsins Maríu Júlíu BA 36 í slipp á Akureyri.

Skipið María Júlía sem var sjósett árið 1949 var fyrsta björgunarskipið á Vestfjörðum. Slysavarnadeildir á Vestfjörðum hófu söfnunarátak til að kaupa björgunarskip árið 1936. Þannig lögðu sjómenn hluta af afla sínum til verkefnisins og voru kvennadeildir slysavarnarfélaga óþreytandi við að safna fé með margvíslegum hætti.

Ríkisstjórn Íslands kom að verkefninu árið 1945 og gerði samning við landsstjórn Slysavarnafélagsins um smíði á skipi sem skyldi annast björgunarstörf og strandgæslu við Vestfirði. Að ósk slysavarnadeilda á Vestfjörðum hlaut skipið nafnið María Júlía en framlag hjónanna Maríu Júlíu Gísladóttur og Guðmundar B. Guðmundssonar á Ísafirði átti stóra þátt í því að smíði skipsins varð að veruleika.

María Júlía sinnti björgunar-, gæslu- og hafrannsóknarstörfum þar til skipið var selt einkaaðilum árið 1969 og var gert út til ársins 2003. Sama ár var stofnað Áhugamannafélag um Maríu Júlíu en Byggðasafn Vestfjarða og Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti við Patreksfjörð keyptu skipið í því skyni að gera það upp og varðveita. Nokkuð hefur áunnist í því verkefni en síðustu ár hefur skipið legið við bryggju í Ísafjarðarhöfn í slæmu ásigkomulagi.

Hollvinasamtök um Maríu Júlíu voru stofnuð í fyrra í þeim tilgangi að vinna áfram að endurbótum á skipinu. Fyrirhugað er að flytja skipið í slipp á Akureyri. Kostnaður við flutning, hreinsun, botnmálun, frágang í tímabundna geymslu og áætlunargerð um næstu skref í endurgerð skipsins er áætlaður um 30 m.kr. Eins og að framan greinir nemur styrkur ríkisstjórnarinnar til verkefnisins 15 m.kr. og er ráðgert að útgerðarfyrirtæki á svæðinu muni kosta það sem upp á vantar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum