Hoppa yfir valmynd
23. júní 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Framlag allra eru verðmæti fyrir samfélagið

Framlag allra eru verðmæti fyrir samfélagið - myndMynd: Menntavísindasvið HÍ

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, hélt nýverið ávarp á útskriftarráðstefnu sem boðið í tilefni útskriftar nemenda í starfstengdu námi fyrir fólk með þroskahömlun við Háskóla Íslands. Yfirskrift ráðstefnunnar var Við viljum mennta okkur! og var markmið hennar að nemendur námsins upplýsi samfélagið um menntun og upplifun þeirra af háskólanámi.

Markmið námsins er að veita fólki með þroskahömlun möguleika til fullgildrar samfélagsþátttöku með undirbúningi til starfa í atvinnulífinu. Í ávarpi sínu fjallaði ráðherra um að í velferðarsamfélagi sé áhersla lögð á jafna möguleika og jafna þátttöku í samfélagslegum verkefnum. „Þetta þýðir líka jöfn tækifæri til menntunar fyrir alla og að fólk eigi möguleika á að afla sér menntunar, hver á sínu sviði og eftir eigin getu,“ sagði Áslaug Arna við útskriftarnema og gesti. „Framlag ykkar eru verðmæti fyrir samfélagið.“

Starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun hefur að mati háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sannað gildi sitt og stuðlað að aukinni þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu til jafns við aðra eftir því sem hægt er. Námið er til þess fallið að vekja athygli á þeim hópum sem hafa ójafna stöðu á við fólk með óskerta starfsorku og getur orðið til þess að koma í veg fyrir útilokun og dregið úr einangrun fólks. Námið er því sannarlega verðugt verkefni.

HA stefnir á starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun haustið 2022

Ráðherra lýsti einnig yfir von sinni um áframhaldandi þróun námsins í samstarfi við nemendur og kennara svo það nýtist sem best og unnt verði að bjóða fleiri nemendum slíka námsmöguleika og innrita árlega í námið. Svo mikil hefur ánægjan með diplómanámið við HÍ verið að undirbúningur samskonar náms við Háskólann á Akureyri er nú þegar hafinn og stefnir HA á að bjóða upp á starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun frá og með haustinu 2022.

„Það er minn draumur að öll hafi aðgang að sama lykli að samfélaginu, í víðtækri merkingu,“ sagði ráðherra við lukkulega útskriftarnemana. „Það á jafnt við um aðgengi að námi og aðgengi að atvinnulífinu, enda námið þar lykill.“

 

  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og nemendur í starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum