Hoppa yfir valmynd
23. júní 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Nýtt diplómanám á sviði farsældar barna hefst í haust

Ásmundur Einar Daðason, Ragnheiður Hergeirsdóttir, Guðný Björk Eydal og Herdís Steingrímsdóttir í fjarfundi - mynd

Nýtt diplómanám á sviði farsældar barna verður kennt í fyrsta skipti veturinn 2022–2023 við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Námið er þverfaglegt og því er ætlað að styðja við innleiðingu nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna með því að veita nemendum þekkingu á barnamiðaðri nálgun, samþættingu þjónustu, hlutverkum tengiliða og málstjóra auk mælinga á árangri. Færni í teymisvinnu og þverfaglegri samvinnu verður í forgrunni með áherslu á fyrsta stigs þjónustu við börn, þ.e. grunnþjónustu.

Nýja diplómanámið byggir á samstarfssamningi sem Ásmundur Einar Daðason, þáverandi félags- og barnamálaráðherra og núverandi mennta- og barnamálaráðherra, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu 22. september 2021. Samningurinn var um að Háskóli Íslands setji á laggirnar tvær tímabundnar lektorsstöður við Félagsráðgjafardeild skólans til þriggja ára í því skyni að efla kennslu og rannsóknir vegna nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. 

Nær 180 umsóknir bárust í námið og koma umsækjendur alls staðar að af landinu. Þeir hafa fjölbreyttan bakgrunn og starfa við þjónustu við börn allt frá 0-18 ára. Aðilar binda miklar vonir við að námið skili sér með markvissum hætti í starf með börnum.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:

„Ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna krefjast þess af okkur öllum sem vinnum með börnum og ungmennum að hugsa á annan hátt en við höfum gert hingað til. Það er nú skylda að allir þjónustuveitendur, þvert á kerfi, samþætti þjónustu sína og að samtalið á milli sé virkt og markvisst. Einn þáttur í innleiðingu laganna er að fræða þá sem vinna með börnum og ungmennum um þennan nýja hugsunarhátt og innleiða hann í alla þjónustu við börn í gegnum þá sem því sinna. Ég bind miklar vonir við þetta nám og er afar ánægður að sjá þau góðu viðbrögð sem náminu hafa verið sýnd“.

Ragnheiður Hergeirsdóttir, Háskóla Íslands:

„Það er mjög ánægjulegt að sjá þennan mikla áhuga á farsældardiplómunni. Við sjáum fram á spennandi tíma og skynjum mikinn áhuga meðal fagfólks á að verða þátttakendur í þeim breytingum í þágu farsældar barna og fjölskyldna sem fram undan eru“.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira