Hoppa yfir valmynd
24. júní 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lilja skipar vinnuhóp sem skoðar gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra hefur ákveðið að skipa vinnuhóp til að greina gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna. Í vinnuhópnum munu eiga sæti fulltrúar tilnefndir af Hagfræðistofnun HÍ, Neytendasamtökunum, ASÍ, Samtökum fjármálafyrirtækja og fjármála- og efnahagsráðherra. Formaður hópsins verður hagfræðingur tilnefndur af menningar- og viðskiptaráðherra.

Brýnt er að hlutur þjónustu- og vaxtagjalda, vaxtamunar og hverskonar annarrar þóknana og annarri gjaldtöku af viðskiptavinum í arðsemi bankanna verið skoðaður í kjölinn og verði greindur með það að markmiði að kanna hvort íslensk heimili greiði meira fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu en heimili á hinum Norðurlöndunum.

Við vitum það að stór hluti af útgjöldum heimilanna rennur til bankanna í formi afborgana af húsnæðis, bíla- og neyslulánum auk vaxta og þjónustugjalda. Samsetning þessara gjalda er oft flókin sem gerir samanburð erfiðan fyrir almenna neytendur. Mikilvægt er að bankakerfið njóti trausts almennings svo það geti stuðlað að heilbrigðum viðskiptaháttum í íslensku atvinnulífi,“ segir Lilja Dögg. Óumdeilt er að sökum smæðar landsins eru margir markaðir hér á landi fákeppnismarkaðir sem leiðir til þess að á stjórnvöldum hvílir aukin ábyrgð um aðhald gagnvart fyrirtækjum sem starfa í skjóli fákeppnisaðstæðna og skila slíkri arðsemi sem raun ber vitni.

Hópurinn mun hafa Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið (2018) til grundavallar, en ráðherra mun einnig fela þeim að skoða gagnsæi í þóknunum og annarri gjaldtöku bankanna. Þá mun hópurinn gera frumkönnun á því hvort samkeppnisaðstæður á bankamarkaði séu með þeim hætti að bankarnir veiti hvor öðrum lítið samkeppnislegt aðhald sem aftur leiðir til þess að þeir geti hagað framsetningu gjalda og arðsemiskrafna með þeim hætti sem raun ber vitni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira