Hoppa yfir valmynd
28. júní 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Afnám löggildingar valdra iðngreina í samráðsgátt – hattasaumsiðn aldrei náð flugi

Breytingar á reglugerð nr. 940/1999 um löggiltar iðngreinar hafa verið birtar í Samráðsgátt. Tillögurnar eru afrakstur vinnu sem ráðist var í í kjölfar úrbótatillaga sem settar voru fram í samkeppnismati Efnahags- og framkvæmdanefndarinnar (OECD) síðla árs 2020. OECD hefur gagnrýnt Ísland fyrir að vera heimsmethafi í fjölda iðngreina sem krefjast löggildingar. Margar þessara greina eru ekki lengur til staðar í atvinnulífinu, hafa ekki verið kenndar í fjölda ára eða hafa tekið slíkum breytingum að forsendur teljast ekki lengur vera til staðar fyrir löggildingu þeirra. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, leggur því til að löggildingu slíkra iðngreina verði annað hvort lögð niður eða þær felldar undir yfirheiti annara iðngreina.

Við undirbúning reglugerðar um breytingu var litið til þess hvort námskrár eru til fyrir viðkomandi grein og í hvaða greinum fáir eða engir hafa lokið sveinsprófi síðastliðna tvo áratugi. Jafnframt var skoðað hvort rökstyðja mætti lögverndun viðkomandi iðngreina með vísan til almannahagsmuna, sér í lagi almannaheilbrigðis og öryggis.

Löggilding sautján iðngreina felldar niður eða sameinaðar öðrum

Lagt er til að löggilding alls sautján iðngreina leggist af eða verði sameinaðar öðrum þar sem greinarnar hafi tekið slíkum breytingum að forsendur séu ekki lengur til staðar fyrir löggildingu þeirra og að hún verði ekki rökstudd með vísan til almannahagsmuna. Löggilding níu iðngreina fellur niður. Ekki eru til námskrár fyrir þessar greinar og hafa þær ekki verið kenndar hér á landi sl. 20 ár eða lengur. Óljóst er því hvaða starfsemi fellur undir greinarnar sem krefst lögverndunar.

Þessar greinar eru feldskurður, glerslípun og speglagerð, hljóðfærasmíði, myndskurður, málmsteypa, mótasmíði og leturgröftur, en í því síðastnefnda hefur ekkert sveinspróf verið skráð síðan árið 1971. Þá hefur ekkert sveinspróf verið skráð síðan árið 1958 í hattasaumi, þá í kvenhattaraiðn, og er því lagt til að löggilding hattasaumsiðnar skuli aflögð. Loks hafa engin sveinspróf nokkru sinni verið skráð í kæli- og frystivélavirkjun og verður löggilding þar að lútandi því afnumin. 

Þá falla átta löggildingar niður og sameinast öðrum. Hingað til hafa klæðskurður karla og kvenna verið aðskildar greinar sem heyra undir yfirflokkinn klæðskurð. Þar sem námskrá býður aðeins upp á nám í alhliða klæðskurði, og sú grein reglulega kennd síðustu ár, er lagt til að greinarnar klæðskurður karla (sveinspróf síðast skráð árið 2004) og klæðskurður kvenna (sveinspróf síðast skráð árið 1960) sameinist í reglugerðinni undir heitinu klæðaskurður.

Álíka fyrirkomulag er lagt til þegar kemur að skósmíðaiðn í hverri engin sveinspróf hafa nokkru sinni verið skráð en undirflokkarnir skósmíði annars vegar og skóviðgerðir hins vegar tilheyra. Því er sameining þessara flokka við yfirgreinina skósmíðaiðn lögð til.

Í ljósi þeirrar almennu reglu sem áratugum saman hefur verið í gildi milli trésmiða og tréskipasmiða að einstaklingar með iðnréttindi í húsasmíði annars vegar og skipa- og bátasmíði hins vegar hafi í gegn um tíðina gengið óáreittir í störf hvors annars er lagt til að síðarnefnda greinin verði sameinuð húsasmíði og greinin þar með lögð niður sem starfsgrein. Þess má geta að eitt sveinspróf var skráð í skipa- og bátasmíði árið 2020 en þar til hafði slíkt ekki verið skráð síðan 1994.

Tuttugu ár eru síðan sveinspróf voru síðast skráð í stálskipasmíði og stálvirkjasmíði. Greinarnar eru ekki lengur kenndar sem sérgreinar heldur eru þær hluti af námi í stálsmíði. Er því lagt til að þær verði sameinaðar undir yfirgreininni stálsmíði.

Að lokum er lagt til að sérgreinarnar almenn ljósmyndun og persónuljósmyndun verði sameinaðar undir yfirheitinu ljósmyndun þar sem þær eru ekki lengur kenndar sem sérgreinar hér á landi. Samkvæmt námskrá er aðeins boðið upp á nám í ljósmyndun.

Breytingar fjarlægja óþarfa aðgangshindranir

Með þessum breytingum á reglugerð um löggiltar iðngreinar er umhverfi þeirra einfaldað og aðlagað að nútímanum. Með afnámi tiltekinna iðngreina og sameiningu annara við víðtækari yfirgreinar er aðgangshindrunum haldið í lágmarki fyrir nýja aðila sem vilja starfa í þessum greinum en hafa ekki leið til að afla sér tilskilinna réttinda í íslensku umhverfi iðngreina. Skv. núgildandi lögum nr. 42/1978 um handiðnað hafa aðeins meistarar, sveinar og nemendur í viðkomandi iðngrein rétt til iðnaðarstarfa í þeim greinum sem löggiltar hafa verið með reglugerð.

Ljóst er þó að í flestum, ef ekki öllum, þessara greina starfa einstaklingar og fyrirtæki án tilskilinna réttinda sem eiga þá í hættu á ákæru um brot á ákvæðum laga um handiðnað þrátt fyrir góð störf og árangur í greininni. Markmiðið með breytingunum er því til þess fallið að opna á tækifæri fyrir fleiri að starfa óáreittir í sinni iðngrein án kröfu um löggildingar sem orðnar eru barn síns tíma.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum