Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2022 Innviðaráðuneytið

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tekur við rekstri fasteignaskrár í dag

Rekstur fasteignaskrár færist formlega til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í dag, 1. júlí, frá Þjóðskrá Íslands. Markmiðið er að einfalda og efla þjónustu við almenning, sveitarfélög og aðra hagaðila. Áform um flutning verkefna tengd skráningu fasteigna og fasteignamat voru kynnt í febrúar. Lög um flutning fasteignaskrár frá Þjóðskrá til HMS voru nýlega samþykkt á Alþingi og taka þau gildi í dag.

HMS mun framvegis bera ábyrgð á allri þjónustu vegna fasteignaskrár. Í frétt um flutninginn á vef HMS segir að Þjóðskrá og HMS leggi mikla áherslu á að ekki verði þjónusturof meðan á sameiningarferlinu stendur og munu engar aðrar breytingar eiga sér stað þann 1. júlí sem hafa áhrif á þjónustuveitingu til viðskiptavina. Stefnt er að því yfirfærslu kerfa verði að mestu lokið 1. september 2022. Þjóðskrá Íslands mun áfram veita öfluga þjónustu við skráningu einstaklinga.

Þegar áform um flutninginn voru kynnt á sínum tíma sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, að fólk geti framvegis leitað á einn stað með erindi tengd fasteignum og húsnæðismálum. „Með þessum breytingum er stigið stórt skref til að samhæfa og einfalda þjónustu á vegum hins opinbera á sviði húsnæðismála. Tilgangurinn er að auka yfirsýn til að gera stjórnvöldum kleift að gera markvissari aðgerðir til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði,“ sagði ráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira